Eldur í gróðri

Forvarnir og viðbrögð vegna gróðurelda

Eftir Vigdísi Häsler og Garðar H. Guðjónsson.

Mikið er rætt um breytt veðurfar um þessar mundir og eru allar líkur á því að þessar breytingar leiði til aukinna þurrka og hækkandi hitastigs hér á landi. Þetta getur aukið líkur á gróðureldum til muna. Ræktun trjágróðurs er mikil hér á landi og með hlýnun verða aðstæður gróðrinum hagstæðari og því líklegt að aukning verði á trjávexti á komandi árum. Lággróður á landinu er mikill í formi grass og mosa. Lággróðurinn er kjörin leið fyrir útbreiðslu elds yfir í hágróður. Einnig geta eldar í þurrum jarðvegi logað lengi og djúpt niður í jörðina langtímum saman.

Í þurrkatíð verður allt þetta lífræna efni eldnærandi og getur eldur borist mjög hratt um lággróðursvæði og hágróðursvæði. Mikilvægt er í skipulagningu gróðursvæða að huga að skiptingu svæða niður í brunahólf til þess að minnka líkur á því að eldur berist á milli hólfa. Þetta er hægt að gera með samsetningu lauftrjáa og barrtrjáa auk þess sem mikilvægt er að aksturshæfir stígar og vegir séu settir á gróðursvæðið til þess að tryggja aðkomu björgunaraðila.

Gróður við sumarhús

Bændur og sumarhúsaeigendur þurfa sérstaklega að huga að sínu nærumhverfi. Víða má sjá sumarhúsahverfi í þéttum skógum eða trjálundum þar sem tré og runnar vaxa alveg upp að sumarhúsum. Þetta eykur mjög líkurnar á því að gróðureldur berist í mannvirkin. Mikilvægt er að alla vega einn og hálfur metri í kringum húsin séu alveg gróðurlausir og enginn hágróður sé í að minnsta kosti níu metra radíus í kringum húsin. Ágætar leiðbeiningar og upplýsingar um þetta eru á grodureldar.is.

Í þurrkatíð er heillavænlegt að halda gróðri safaspenntum í nærumhverfi bygginga með vökvun, sé þess kostur. Það minnkar verulega líkur á því að eldur berist að húsum. Einnig er mikilvægt að tryggja aðkomu slökkviliðs og annarra björgunaraðila með því að gæta þess að vegir beri þung ökutæki og að trjágróður þrengi ekki að akstursleiðum. Dýrmætur tími getur tapast ef byrja þarf á því að klippa greinar eða höggva niður tré til þess að björgunartæki komist leiðar sinnar.

Aðgangur að slökkvivatni

Ekki er alls staðar greiður aðgangur að vatni til slökkvistarfa á sumarhúsa- og landbúnaðarsvæðum en umtalsvert vatn þarf til slökkvistarfa í gróðureldum. Slökkvilið bera oft og tíðum talsvert vatn með sér í dælubílum og tankbílum en það má sín lítils ef ekki næst að slökkva eldinn á upphafstigi.

Gera má ýmislegt til þess að tryggja aukið slökkvivatn. Þar má nefna niðurgrafnar safnþrær og stíflur í skurðum og lækjum. Auk þess er hægt að safna vatni frá heitum pottum í miðlæga safntanka. Best er að gera þetta með vitneskju viðkomandi slökkviliðs, svo björgunaraðilar viti hvar vatnið er að finna og svo hægt sé að tryggja að tæki slökkviliðsins nái vatni úr viðkomandi vatnslind.

Hvað varðar flótta fólks frá sumarhúsasvæðum þar sem eldur hefur komið upp í gróðri er mikilvægt að flóttaleiðir séu að minnsta kosti tvær, helst úr gagnstæðum áttum. Eldur og reykur geta bæði hindrað og heft för fólks ef vindátt er þannig að flóttaleið lokast.

 Gætum að eigin öryggi og annarra

Það er afar mikilvægt að huga að sínu nærumhverfi með fyrirbyggjandi hætti til þess að lágmarka þá hættu sem að okkur og okkar nánustu getur steðjað. Það getur verið langt í næstu björgunaraðila og þegar eldur hefur náð sér á strik getur hann breiðst út með ógnarhraða. Við berum heilmikla ábyrgð sem einstaklingar og þurfum því að gæta öryggis og haga leik og störfum þannig að hvorki okkur né öðrum stafi hætta af. Lykillinn að öruggu nærumhverfi er góður undirbúningur og fyrirbyggjandi aðgerðir. Kvikni eldur í gróðri er nánast alltaf hægt að slökkva hann á auðveldan hátt í upphafi hafi maður til þess réttu áhöldin. En fái hann að dafna, þótt ekki sé nema í örfáar mínútur, getur voðinn verið vís.

Vigdís er framkvæmdastjóri Bændasamtakanna.

Garðar er framkvæmdastjóri Eldvarnabandalagsins

Greinin birtist í Bændablaðinu 9. júní.

 

Skildu eftir svar