default

Vel heppnað samstarf Eldvarnabandalagsins við Sveitarfélagið Hornafjörð um auknar eldvarnir

Samstarf Eldvarnabandalagsins og Sveitarfélagsins Hornafjarðar um auknar eldvarnir hefur skilað sér í bættum eldvörnum bæði á vinnustöðum sveitarfélagsins og heimilum starfsmanna. Borgþór Freysteinsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Austur-Skaftafellssýslu, leggur mikla áherslu á að sveitarfélagið haldi áfram eigin eldvarnaeftirliti í stofnunum sínum, enda skili það auknum eldvörnum og geri eftirlit slökkviliðs bæði einfaldara og auðveldara. Þetta kemur fram í sameiginlegri greinargerð og árangursmati aðila sem nýlega var lagt fram í stjórn Eldvarnabandalagsins og bæjarráði Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Bæjarráð lýsti yfir ánægju með samstarfið og þann árangur sem það hefur skilað.

Samkomulag Eldvarnabandalagsins og Sveitarfélagsins Hornafjarðar um auknar eldvarnir og innleiðingu eigin eldvarnaeftirlits var undirritað á Höfn 3. júní 2020. Samkomulagið náði til allra vinnustaða sveitarfélagsins. Í samræmi við samkomulagið setti sveitarfélagið sér eldvarnastefnu að fyrirmynd Eldvarnabandalagsins og innleiddi verklagsreglur um logavinnu.

Skipaðir voru og þjálfaðir um það bil tíu eldvarnafulltrúar sem framkvæmt hafa eigið eldvarnaeftirlit síðan haustið 2020. Starfsfólk sveitarfélagsins fékk fræðslu um eldvarnir á vinnustað og heimili. Eldvarnabandalagið lagði til allt fræðsluefni án endurgjalds, jafnt prentað efni sem rafrænt. Brunavarnir Austur-Skaftafellssýslu önnuðust fræðslu fyrir eldvarnafulltrúa og annað starfsfólk.

Slökkviliðsstjóri heldur utan um gögn vegna eigin eldvarnaeftirlits í Brunaverði og hefur þannig góða yfirsýn yfir ástand og þróun eldvarna. Gögnin eru jafnframt send umsjónarmanni fasteigna sveitarfélagsins og bera hann og forstöðumenn stofnana ábyrgð á að fylgja eftir ábendingum eldvarnafulltrúa. Það er eindregið mat slökkviliðsstjóra að verkefnið hafi leitt til öflugri eldvarna á vinnustöðum og heimilum starfsfólks og er honum umhugað um að verkefnið haldi áfram þótt samstarfinu við Eldvarnabandalagið ljúki nú í samræmi við samkomulagið.

Í svörum við spurningakönnun sem lögð var fyrir eldvarnafulltrúa kemur meðal annars fram að þeir eru einhuga um að fræðsla sem þeir fengu um eldvarnir heimilisins hafi haft jákvæð áhrif á eldvarnir heima hjá þeim.

Borgþór og Garðar H. Guðjónsson, framkvæmdastjóri Eldvarnabandalagsins, skrifa undir greinargerðina. Helstu niðurstöður hennar eru eftirfarandi:

  • Framkvæmd verkefnisins hefur að mestu gengið vel þrátt fyrir erfiðar aðstæður í heimsfaraldri.
  • Gögn Eldvarnabandalagsins komu að góðum notum, jafnt prentuð sem rafræn.
  • Verkefnið hefur skilað sér í auknum eldvörnum í stofnunum sveitarfélagsins.
  • Verkefnið hefur skilað sér í auknum eldvörnum á heimilum starfsmanna.
  • Slökkviliðsstjóra er umhugað um að eigin eldvarnaeftirliti verði haldið áfram til lengri tíma.
  • Eigið eldvarnaeftirlit í stofnunum sveitarfélagsins hefur auðveldað og einfaldað eftirlit af hálfu slökkviliðs og mikilvægt er að slökkvilið hafi nú tengiliði í stofnunum sem þekkja til eldvarna.
  • Mikilvægt er að unnið verði áfram eftir eldvarnastefnu sveitarfélagsins.
  • Árangur af verkefninu byggir að miklu leyti á eftirfylgni forstöðumanna stofnana og þeirra sem hafa umsjón með fasteignum sveitarfélagsins.

Skildu eftir svar