SÞ

Árangursríkt samstarf við Skinney-Þinganes og Vélsmiðjuna Foss um auknar eldvarnir

Samstarf Eldvarnabandalagsins við Skinney-Þinganes hf. og Vélsmiðjuna Foss á Höfn í Hornafirði og í Þorlákshöfn um auknar eldvarnir hjá fyrirtækjunum og starfsfólki þeirra gekk vel og þjónaði tilgangi sínum. Þetta kemur fram í sameiginlegri greinargerð og árangursmati aðila og slökkviliðsstjóra Brunavarna Austur-Skaftafellssýslu. Sameiginleg niðurstaða aðila er eftirfarandi:

  • Eldvarnafulltrúar sinntu eigin eldvarnaeftirliti vel og nutu stuðnings yfirmanna á vinnustöðum.
  • Vel gekk að gera úrbætur á eldvörnum í samræmi við athugasemdir eldvarnafulltrúa og hafa traustar eldvarnir þegar sannað gildi sitt.
  • Fræðsla fyrir eldvarnafulltrúa og starfsfólk gekk vel og skilaði tilætluðum og áþreifanlegum árangri.
  • Fyrirtækið starfar nú í fyrsta sinn samkvæmt sérstakri eldvarnastefnu.
  • Verkefnið hefur styrkt samband fyrirtækisins við slökkvilið og auðveldað eftirlit slökkviliðs með eldvörnum fyrirtækisins.
  • Verkefnastjóri hjá Skinney-Þinganes og slökkviliðsstjóri segjast hiklaust geta mælt með því við önnur fyrirtæki að feta sömu braut.

Samkomulag Eldvarnabandalagsins og Skinneyjar-Þinganess hf. á Höfn í Hornafirði og í Þorlákshöfn um auknar eldvarnir og innleiðingu eigin eldvarnaeftirlits var undirritað í ágúst 2021. Samkomulagið nær til allra vinnustaða Skinneyjar-Þinganess og Vélsmiðjunnar Foss en fyrirtækið hefur margvíslega starfsemi á Höfn og fiskvinnslu í Þorlákshöfn. Í samræmi við samkomulagið setti fyrirtækið sér eldvarnastefnu að fyrirmynd Eldvarnabandalagsins.

Skipaðir voru tveir eldvarnafulltrúar sem framkvæmt hafa eigið eldvarnaeftirlit í starfsstöðvunum á Höfn síðan í nóvember 2021. Innleiðing og framkvæmd eigin eldvarnaeftirlits í Þorlákshöfn er einnig hafin í samvinnu við Brunavarnir Árnessýslu. Starfsfólk fyrirtækisins á Höfn fékk fræðslu um eldvarnir á vinnustað og heimili.

Eldvarnabandalagið lagði til allt fræðsluefni án endurgjalds. Brunavarnir Austur-Skaftafellssýslu önnuðust fræðslu fyrir eldvarnafulltrúa og annað starfsfólk. Glærur á ensku og pólsku nýttust vel og vakti það athygli Borgþórs Freysteinssonar slökkviliðsstjóra hvað erlendir starfsmenn sýndu efninu mikinn áhuga. Þeir spurðu mikið og segir Borgþór líklegt að margir hafi verið að fá fræðslu um eldvarnir í fyrsta sinn. Stór hluti starfsfólks á Höfn er frá Póllandi og fleiri ríkjum Austur-Evrópu.

Eldvarnafulltrúar fyrirtækisins eru báðir slökkviliðsmenn og iðnaðarmenn og segir Eik Aradóttir, verkefnastjóri sem fer með mannauðs- og öryggismál, það hafa komið sér afar vel við framkvæmd eigin eldvarnaeftirlits. Eldvarnafulltrúarnir þekkja mannvirki fyrirtækisins vel og hafa yfirleitt séð sjálfir um að laga það sem þurft hefur að laga. Eik segir hafa gengið mjög vel að halda eldvörnum við í samræmi við niðurstöður eigin eldvarnaeftirlits og Borgþór tekur undir það. Hann telur framkvæmd eigin eldvarnaeftirlits raunar skipta sköpum um gæði eldvarna hjá fyrirtækinu. Það hafi auk þess auðveldað og einfaldað mjög eftirlit slökkviliðs með eldvörnum. Eik bendir einnig á að við framkvæmd verkefnisins hafi myndast mikilvægur samráðsvettvangur milli fyrirtækisins og slökkviliðs og sameiginlegur skilningur á mikilvægi þess að hafa eldvarnir í lagi.

Eik og Borgþór segjast sannfærð um að fræðsla fyrir starfsfólk hafi skilað sér í aukinni vitund um mikilvægi eldvarna á vinnustað og heimilum. Þau nefna sem dæmi að rýmingaræfingar hafi ekki gengið sem skyldi fyrr en eftir að starfsfólkið fékk fræðsluna. Rýmingaræfing var síðast haldin í september síðastliðnum og gekk að óskum. Voru þá tekin í notkun ný söfnunarsvæði og þau merkt. Einnig eru þekkt dæmi um að reykskynjarar sem starfsfólk fékk að gjöf frá VÍS í fyrra hafi loks farið á sinn rétta stað eftir fræðsluna fyrir starfsfólkið.

 

 

Skildu eftir svar