Skagafjörður

Kaupfélag Skagfirðinga setur sér eldvarnastefnu og eflir eldvarnir í samvinnu við Eldvarnabandalagið

Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hefur samið við Eldvarnabandalagið um samstarf við innleiðingu eigin eldvarnaeftirlits á öllum starfsstöðvum KS í Skagafirði. Samkvæmt samkomulagi aðila fær allt starfsfólk KS fræðslu um eldvarnir á heimili og vinnustað og eintak af handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins. Um er að ræða um 220 starfsmenn. KS skipar eldvarnafulltrúa sem fá fræðslu og þjálfun til að sinna árlegu og mánaðarlegu eigin eldvarnaeftirliti samkvæmt gátlistum Eldvarnabandalagsins. Þá setur KS sér eldvarnastefnu að fyrirmynd Eldvarnabandalagsins og tileinkar sér verklagsreglur bandalagsins um logavinnu. Eldvarnabandalagið lætur í té allt fræðsluefni á íslensku, ensku og pólsku án endurgjalds og Brunavarnir Skagafjarðar annast fræðslu fyrir eldvarnafulltrúa og starfsfólk.

KS hefur með höndum margvíslega starfsemi í Skagafirði í alls níu starfsstöðvum. Það rekur skrifstofu, verslanir, kjötafurðastöð, mjólkursamlag og véla- og bifreiðaverkstæði. Helga Jónína Guðmundsdóttir, deildarstjóri starfsmannahalds hjá KS, segist fagna samstarfinu við Eldvarnabandalagið.

„Eitt af dótturfyrirtækjum okkar, FISK Seafood, hefur átt mjög farsælt samstarf við Eldvarnabandalagið um eflingu eldvarna og það varð okkur hvatning til að feta sömu braut. Ég vænti þess að árangurinn verði ekki síðri hjá KS en FISK Seafood,“ segir Helga Jónína. Þess má geta að Sveitarfélagið Skagafjörður hefur einnig farið í gegnum sams konar samstarf við Eldvarnabandalagið og Dögun rækjuverksmiðja á Sauðárkróki hefur gert samning um hið sama. Það er því óhætt að segja að eldvarnir séu teknar föstum tökum í Skagafirði um þessar mundir.

„Við reiknum með að ljúka allri fræðslu og öðrum undirbúningi í september og hefja framkvæmd eigin eldvarnaeftirlits á öllum okkar starfsstöðvum 1. október næstkomandi. Það er okkur mikið ánægjuefni að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni með Eldvarnabandalaginu. Það er ótvírætt allra hagur,“ segir Helga Jónína.

 

Skildu eftir svar