Eflum eldvarnir í landbúnaði og á heimilum í dreifbýli

Eftir Vigdísi Häsler og Garðar H. Guðjónsson.

Í ársbyrjun gerðu Bændasamtök Íslands og Eldvarnabandalagið með sér samkomulag um sameiginlegar aðgerðir til að efla eldvarnir í landbúnaði og á heimilum í dreifbýli. Samstarfið mun standagardartjúnuð og hreinsuð yfir að minnsta kosti þetta árið og lengur ef okkur sýnist svo. Við höfum nú þegar sent öllum félagsmönnum í Bændasamtökunum bréf í gegnum Bændatorgið þar sem við hvetjum þá til að huga að eldvörnum jafnt á heimilinu sem í úti- og gripahúsum. Könnun sem Gallup gerði fyrir Eldvarnabandalagið sýnir að ekki er vanþörf á. Bréfinu fylgdi fræðsluefni um eldvarnir í landbúnaði og á heimilum. Von okkar er sú að bændur taki ábendingum okkar um að bæta eldvarnir vel og sjái til þess að þær séu ávallt eins og best verður á kosið.

Meginhvatinn til að efla eldvarnir er að sjálfsögðu að vernda líf og heilsu fólks og búfjár, en jafnframt að vernda rekstur og eignir. Ráðstafanir til að efla eldvarnir eru yfirleitt ekki mjög kostnaðarsamar og ættu að vera á allra færi.

Samkvæmt samkomulaginu munum við meðal annars:

  • Standa fyrir fræðslu um eldvarnir í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.
  • Leita hófanna hjá Landbúnaðarháskóla Íslands um hvort bæta megi fræðslu um eldvarnir og öryggismál, meðal annars með endurmenntunarnámskeiði fyrir bændur.
  • Útbúa fræðsluefni um eldvarnir og koma því á framfæri með ýmsum hætti, meðal annars í samstarfi við Félag slökkviliðsstjóra.
  • Sjá til þess að félagsmönnum í Bændasamtökunum bjóðist að kaupa eldvarnabúnað á sérstökum afsláttarkjörum og með frírri heimsendingu.
  • Taka tillit til eldvarna og öryggismála í stefnumótunarvinnu Bændasamtakanna.

Könnun Gallup sýnir að vísu að eldvarnir á heimilum í dreifbýli eru almennt betri en gengur og gerist miðað við kannanir Gallup á eldvörnum á heimilum almennt. Engu að síður er ljóst að margir þurfa að gera miklu betur og sjá til þess að fyrir hendi séu nægilega margir virkir reykskynjarar, slökkvitæki og eldvarnateppi.

Á hinn bóginn leiðir könnunin í ljós að eldvörnum í byggingum í landbúnaði er víða mjög ábótavant. Algengt er að viðvörunarbúnað skorti í úti- og gripahúsum. Slökkvibúnaði er víða áfátt. Sums staðar er áhætta mikil vegna óviðunandi ástands á rafmagni og byggingarefni eru víða mjög eldfim. Víða er ónógur aðgangur að slökkvivatni í grennd við býli. Úr þessu öllu má bæta ef viljinn er fyrir hendi.

Vigdís er framkvæmdastjóri Bændasamtakanna.

Garðar er framkvæmdastjóri Eldvarnabandalagsins

Skildu eftir svar