110122_eldvarnir_2

Samkomulag um aðgerðir til að efla eldvarnir í landbúnaði

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna og Garðar H. Guðjónsson, framkvæmdastjóri Eldvarnabandalagsins hafa undirritað samstarfssamning um að efla eldvarnir í landbúnaði.

Samstarfið nær til eldvarna á heimilum félagsmanna BÍ, eldvarna í úti- og gripahúsum, gróðurhúsum og öðrum mannvirkjum sem tengjast búrekstri ásamt varna gegn gróðureldum. Samkomulagið gildir til loka árs 2022.

Í samkomulaginu felast ýmsar aðgerðir til að ná sem best til félagsmanna Bændasamtakanna og tryggja um leið að eldvarnir í sveitum landsins verði eins og best verður á kosið. Helstu aðgerðir eru eftirfarandi:

  • Aðilar senda öllum félagsmönnum BÍ sameiginlegt bréf um mikilvægi þess að tryggja góðar eldvarnir á búi og heimili. Í bréfinu verður gerð grein fyrir helstu niðurstöðum könnunar á eldvörnum í dreifbýli sem Gallup gerði fyrir Eldvarnabandalagið. Bréfinu fylgir fræðsluefni um eldvarnir.
  • Aðilar útbúa reglulega greinar um eldvarnir til birtingar í viðeigandi fjölmiðlum og koma upplýsingum um eldvarnir á framfæri með öðrum hætti.
  • Kannaður verður af beggja hálfu möguleiki á að fjármagna gerð og birtingu auglýsinga um eldvarnir og mikilvægi þeirra.
  • Aðilar kanna hvort bæta megi fræðslu um eldvarnir og öryggi í LbhÍ, meðal annars með endurmenntunarnámskeiði.
  • Aðilar vinna saman að því að halda fræðsluerindi um eldvarnir á vettvangi búnaðarsambanda og í gegnum streymi. Útbúið verður staðlað og hæfilega langt erindi í þessu skyni. Óskað verður eftir samstarfi við Félag slökkviliðsstjóra um þátttöku.
  • Kannaðir verða möguleikar á að söluaðilar viðurkennds eldvarnabúnaðar veiti félagsmönnum BÍ hagstæð kjör í tengslum við samstarfið og verður athygli þeirra þá sérstaklega vakin á því.
  • Tekið verður tillit til eldvarna í stefnumótunarvinnu Bændasamtakanna.
  • Aðrar hugsanlegar aðgerðir sem aðilar ákveða sameiginlega að ráðast í á samningstímanum auk þeirra sem að framan greinir.

Skildu eftir svar