46028768_920680888143081_8399895749579505664_n

Eldvarnir í grunnskólum Árnessýslu efldar í samvinnu við Eldvarnabandalagið

Samstarf Brunavarna Árnessýslu og Eldvarnabandalagsins um auknar eldvarnir í grunnskólunum í Árnessýslu skilaði góðum árangri, hvort sem litið er til eldvarna á heimilum starfsmanna eða í skólunum. Starfsmenn skólanna fengu fræðslu um eldvarnir á heimili og vinnustað og var þeim afhent handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins. Eldvarnabandalagið lagði til allt fræðsluefni án endurgjalds en Brunavarnir Árnessýslu önnuðust fræðslu og höfðu umsjón með verkefninu. Skipaðir voru eldvarnafulltrúar í átta grunnskólum á svæðinu og var eigið eldvarnaeftirlit að fullu innleitt í febrúar 2019. Landbúnaðarháskólinn að Reykjum í Ölfusi gerðist auk þess aðili að verkefninu í janúar síðastliðnum. Þetta kemur fram í sameiginlegri greinargerð og árangursmati aðila sem kynnt var á fundi stjórnar Eldvarnabandalagsins í gær.

Guðmundur G. Þórisson, deildarstjóri eldvarnaeftirlits Brunavarna Árnessýslu, hafði umsjón með verkefninu. Hann segir verkefnið hafa gengið vel fyrir sig og skilað tilætluðum árangri. Starfsfólk hafi sýnt fræðslu um eldvarnir áhuga og í ljós hafi komið við árlega skoðun eldvarnaeftirlitsins í skólunum að gátlistar hafi verið samviskusamlega unnir og ástand eldvarna í skólunum að jafnaði verið betra yfir allt árið. Niðurstöðurnar eru áþekkar niðurstöðum af sambærilegu samstarfi sem Eldvarnabandalagið hefur átt við sveitarfélög víða um land á undanförnum árum.

Myndin var tekin við undirritun samnings um samstarfið í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi í nóvember 2018. Frá vinstri: Garðar H. Guðjónsson, framkvæmdastjóri Eldvarnabandalagsins, Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, og Björn Karlsson, þáverandi formaður Eldvarnabandalagsins.

Skildu eftir svar