Árangursríkt samstarf við sveitarfélög um eldvarnir

Eldvarnabandalagið hefur á undanförnum árum átt farsælt samstarf við allmörg sveitarfélög um að efla eldvarnir bæði í stofnunum sveitarfélaganna og á heimilum starfsfólks. Árangursmat sem gert hefur verið í samvinnu aðila bendir eindregið til þess að eldvarnir hafi eflst bæði á vinnustöðum sveitarfélaganna og heimilum starfsfólks. Alls er um að ræða vel á annan tug sveitarfélaga víðs vegar um land.

Eftir Garðar H. Guðjónsson og Björn Karlsson

Eldvarnabandalagið er samstarfsvettvangur um að efla eldvarnir á heimilum og vinnustöðum. Aðild að því eiga tíu stofnanir, félagasamtök og fyrirtæki. Samstarfið við sveitarfélögin felst í því að sveitarfélögin innleiða eigið eldvarnaeftirlit í stofnunum sínum, svo sem skólum, leikskólum, skrifstofum, íþróttamannvirkjum og áhaldahúsum. Tilnefndir eru eldvarnafulltrúar fyrir hverja stofnun og fá þeir nauðsynlega þjálfun til að sinna mánaðarlegu og árlegu eldvarnaeftirliti eftir gátlistum Eldvarnabandalagsins.

Auk þess fær allt starfsfólk sveitarfélaganna fræðslu um eldvarnir á vinnustað og heima og fá þeir afhenta handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins. Eldvarnabandalagið leggur til allt fræðsluefni án endurgjalds en slökkvilið viðkomandi sveitarfélaga annast fræðslu og hafa umsjón með verkefninu.

Fjöldi sveitarfélaga

Verkefnið var upphaflega þróað í samvinnu við Akraneskaupstað á árunum 2015-2016. Samstarfið við Akraneskaupstað þótti takast svo vel að Akureyri, Húnaþing vestra og Fjarðabyggð óskuðu eftir sambærilegu samstarfi og gekk það eftir. Síðan hafa Dalvíkurbyggð, Vestmannaeyjar, Sveitarfélagið Skagafjörður og sveitarfélögin sex sem standa að Brunavörnum á Austurlandi bæst í hópinn. Í ársbyrjun 2019 innleiddu Brunavarnir Árnessýslu eigið eldvarnaeftirlit í grunnskólum á starfssvæði sínu og fræddu allt starfsfólk skólanna um eldvarnir á vinnustað og heima.

Ótvíræður árangur

Hvert samstarfsverkefni stendur í eitt ár. Að því búnu meta aðilar hvernig til hefur tekist. Samkvæmt sameiginlegu árangursmati hafa verkefnin öll leitt til bættra eldvarna á vinnustöðum og heimilum starfsfólks. Spurningalistar hafa verið lagðir fyrir eldvarnafulltrúa sveitarfélaganna og eru niðurstöður mjög jákvæðar. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra telur að eigið eldvarnaeftirlit og fræðsla til starfsfólks hafi leitt til betri eldvarna á vinnustað og heimili.

Svo dæmi sé tekið kemur fram í nýlegu árangursmati vegna samstarfs Eldvarnabandalagsins og Brunavarna á Austurlandi að 92 prósent eldvarnafulltrúa sveitarfélaganna sex telja að störf þeirra hafi leitt til betri eldvarna á vinnustaðnum. 96 prósent segja að fræðsla slökkviliðsins hafi haft jákvæð áhrif á eldvarnir heimilisins. Slökkviliðsstjóri og eldvarnaeftirlitsmaður telja að verkefnið hafi leitt til vitundarvakningar um eldvarnir á vinnustöðum sveitarfélaganna. Svipaða sögu er að segja af öðrum sveitarfélögum og er það afar ánægjulegt.

Garðar er verkefnastjóri Eldvarnabandalagsins. Björn er forstjóri Mannvirkjastofnunar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. febrúar síðastliðinn.

 

Skildu eftir svar