Ungt fólk býr við miklu lakari eldvarnir en aðrir samkvæmt könnun Gallup

Fólk á aldrinum 25-34 ára stendur öðrum langt að baki þegar kemur að eldvörnum á heimilinu samkvæmt könnun sem Gallup hefur gert fyrir Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) og Eldvarnabandalagið. Hvort sem litið er til fjölda reykskynjara eða slökkvibúnaðar stendur þessi aldurshópur mun lakar að vígi en aðrir. Kannanir sem Gallup hefur gert reglulega á undanförnum árum sýna þó að heimilin efla almennt eldvarnir og eru þannig betur búin undir að bregðast við eldsvoða. Um helmingur heimila hefur nú þann eldvarnabúnað sem mælt er með, það er reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi.

Fræðslan skilar árangri

– Það er vissulega sláandi að ungt fólk, sem er líklegt til að hafa ung börn á heimilinu, er sinnulaust gagnvart nauðsynlegum eldvörnum. Það er umhugsunarefni nú þegar við erum að hefja árlegt Eldvarnaátak slökkviliðsmanna í grunnskólum um allt land. Hins vegar sýna kannanir Gallup okkur að fræðsla um eldvarnir skilar sér hægt og bítandi þegar á heildina er litið og ljóst er að stór hluti almennings er mjög meðvitaður um mikilvægi eldvarna á heimilinu, segir Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjóri LSS. Eldvarnaátakið hefst í Lækjarskóla í Hafnarfirði fimmtudaginn 22. nóvember kl. 10.30.

Eldvarnir lakastar hjá 25-34 ára

Tíu prósent svarenda á aldrinum 25-34 ára hafa engan reykskynjara og önnur 24 prósent aðeins einn, samkvæmt könnun Gallup, en hlutfall þeirra sem hafa engan reykskynjara er mun lægra í öðrum aldurshópum, allt niður í þrjú prósent. Sömu sögu er að segja þegar litið er til slökkvitækja og eldvarnateppa á heimilum. Fólk á aldrinum 25-34 ára er mun ólíklegra til að hafa slíkan búnað á heimilinu en aðrir. Þannig segjast aðeins 49 prósent unga fólksins eiga eldvarnateppi en þetta hlutfall er allt að 66 prósent í öðrum aldurshópum og yfir 60 prósent að meðaltali.

Athyglisvert er að dregið hefur saman með leigjendum og þeim sem búa í eigin húsnæði hvað varðar slökkvitækjaeign miðað við fyrri kannanir enda hefur nú verið bundið í lög að slökkvitæki skuli vera í leiguhúsnæði.

 Helstu niðurstöður könnunar Gallup eru þessar:

  • Á um helmingi heimila eru allt í senn reykskynjarar, slökkvitæki og eldvarnateppi.
  • Á 24 prósent heimila er enginn eða aðeins einn reykskynjari (38,4 prósent 2006).
  • Heimilum með fjóra reykskynjara eða fleiri hefur á sama tíma fjölgað úr 21,5 prósent árið 2006 í 33,3 prósent nú.
  • Slökkvitæki eru á um 74 prósent heimila og hefur þetta hlutfall aldrei mælst hærra.
  • Eldvarnir eru að jafnaði öflugastar hjá þeim sem búa í einbýli en lakastar hjá þeim sem búa í fjölbýli.

Eldvarnaátakið hefst sem fyrr segir 22. nóvember og stendur fram í byrjun aðventu. Slökkviliðsmenn heimsækja þá nemendur í 3. bekk grunnskóla um allt land og fræða þá um eldvarnir. Helstu styrktaraðilar Eldvarnaátaksins eru Mannvirkjastofnun, 112, Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, TM og slökkviliðin í landinu.

Skildu eftir svar