46028768_920680888143081_8399895749579505664_n

Eldvarnabandalagið og Brunavarnir Árnessýslu í samstarf um auknar eldvarnir

Eldvarnabandalagið og Brunavarnir Árnessýslu hafa gert með sér samkomulag um að auka eldvarnir í stofnunum sveitarfélaganna á starfssvæði Brunavarna Árnessýslu. Samningur um þetta var undirritaður í björgunarmiðstöðinni á Selfossi í vikunni.

Samstarfið verður með sama sniði og samstarf sem Eldvarnabandalagið hefur átt við 12 sveitarfélög víða um land á undanförnum árum. Það felst í því að innleitt verður eigið eldvarnaeftirlit í stofnunum sveitarfélaganna átta sem standa að Brunavörnum Árnessýslu. Það beinist fyrst um sinn að grunnskólunum á svæðinu og voru fulltrúar þeirra viðstaddir undirritunina og fengu um leið kynningu á verkefninu. Skipaðir verða og þjálfaðir eldvarnafulltrúar fyrir hvern og einn skóla og hefja þeir eigið eldvarnaeftirlit í skólunum 15. janúar 2019 samkvæmt gögnum og gátlistum frá Eldvarnabandalaginu.

Allt starfsfólk grunnskólanna fær fræðslu um eldvarnir bæði á vinnustað og á heimilinu. Þeir fá allir afhent eintak af handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins. Eldvarnabandalagið leggur til allt fræðsluefni vegna samstarfsins en Brunavarnir Árnessýslu annast framkvæmdina.

Skildu eftir svar