Efla eldvarnir og öryggi í íbúðum Búseta

Húsnæðissamvinnufélagið Búseti hefur í samvinnu við Eldvarnabandalagið hvatt íbúa til að fara yfir eldvarnir á heimilum sínum og gera úrbætur eftir þörfum. Með sameiginlegu bréfi Búseta og Eldvarnabandalagsins til íbúa fylgir handbók um eldvarnir heimilisins og rafhlaða sem passar í flestar gerðir reykskynjara.

Búseti býður uppá tæplega 1.000 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu og Akranesi. Þar af heyra um 200 íbúðir undir Leigufélag Búseta. Ljóst er að íbúðum á vegum félagsins mun fjölga á næstu misserum.

Í bréfinu til íbúa er minnt á mikilvægi reykskynjara, slökkvitækja og eldvarnateppa. Vanti slíkan búnað á heimili viðkomandi býður Búseti hann á heildsöluverði með heimsendingu og uppsetningu án endurgjalds.

Bjarni Þór Þórólfsson, framkvæmdastjóri Búseta, segir félagið líta á það sem hluta af  samfélagslegri ábyrgð sinni að tryggja nauðsynlegar eldvarnir í íbúðum félagsins og þar með öryggi íbúanna.

– Við reynum eftir fremsta megni að tryggja eldvarnir í íbúðum félagsins með því að koma fyrir reykskynjurum, slökkvitæki og eldvarnateppi og yfirfara búnaðinn við íbúaskipti, segir Bjarni.

Í bréfinu er minnt á að virkir reykskynjarar og slökkvibúnaður tryggja nauðsynlega viðvörun og fyrstu viðbrögð við eldsvoða. Íbúar eru jafnframt beðnir að hafa hugfast að með réttri umgengni og eðlilegri varúð má koma í veg fyrir eða draga verulega úr hættu á að eldur komi upp. Það er ekki síður mikilvægt, segir í bréfi Búseta og Eldvarnabandalagsins.

Skildu eftir svar