Tólf sveitarfélög hafa innleitt eigið eldvarnaeftirlit

Alls hafa tólf sveitarfélög gert samninga við Eldvarnabandalagið um innleiðingu eigin eldvarnaeftirlits á undanförnum misserum og er ljóst að þeim mun fjölga á næstunni. Áætlað er að nær fimm þúsund starfsmenn viðkomandi sveitarfélaga hafi fengið fræðslu um eldvarnir á vinnustað og heima í tengslum við verkefnið. Þetta kom fram í máli Garðars H. Guðjónssonar verkefnastjóra á ársfundi Eldvarnabandalagsins sem haldinn var hjá VÍS síðastliðinn föstudag.

Ársfundurinn var sá áttundi í röðinni og var hann vel sóttur. Baldur Pálsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Austurlands, flutti erindi um eldvarnir í landbúnaði og Guðmundur Helgi Sigfússon, slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð, fjallaði um eldvarnir í sjávarútvegi. Þá ræddi Elfa S. Leifsdóttir, sálfræðingur hjá Rauða krossinum, um sálræn eftirköst eldsvoða á heimilum og Kristján Rúrik Vilhelmsson, starfsmaður Mannvirkjastofnunar, fór yfir brunatjón síðasta árs. Sigrún A. Þorsteinsdóttir, sérfræðingur í forvörnum einstaklinga hjá VÍS, var fundarstjóri.

Samstarf við sveitarfélög hefur verið meðal helstu verkefna Eldvarnabandalagsins á undanförnum árum. Það hófst sem þróunarverkefni á Akranesi 2015 en síðan hafa ellefu önnur sveitarfélög innleitt eigið eldvarnaeftirlit í samvinnu við Eldvarnabandalagið. Samstarfi við Akureyrarbæ, Fjarðabyggð og Húnaþing vestra er lokið og bendir sameiginlegt árangursmat ótvírætt til þess að verkefnin hafi skilað árangri, hvort sem litið er til eldvarna á vinnustöðum sveitarfélaganna eða heimilum starfsmanna.

Samstarf við Vestmannaeyjabæ, Dalvíkurbyggð og sveitarfélögin sex sem standa að Brunavörnum Austurlands stendur yfir. Eigið eldvarnaeftirlit hefur verið innleitt í stofnunum sveitarfélaganna og starfsmenn hafa fengið fræðslu um eldvarnir heima og á vinnustað. Vel á annað hundrað eldvarnafulltrúar annast nú mánaðarlegt og árlegt eldvarnaeftirlit á vegum sveitarfélaganna.

Skildu eftir svar