Námskeið um logavinnu á Norðurlandi í nóvember

Iðan fræðslusetur hefur í samvinnu við Eldvarnabandalagið auglýst námskeið um eldvarnir við logavinnu á Norðurlandi í nóvember. Fyrra námskeiðið verður haldið á Sauðárkróki 2. nóvember og það síðara á Akureyri 15. nóvember. Námskeiðið er ætlað öllum sem vinna logavinnu, standa fyrir slíkri vinnu eða kaupa hana af öðrum. Eldvarnir vegna logavinnu eru eitt af áhersluverkefnum Eldvarnabandalagsins enda hafa í gegnum tíðina orðið margir og alvarlegir eldsvoðar vegna slíkrar vinnu.

Með logavinnu er átt við til dæmis þegar asfalt er brætt með gasloga, unnið er við logsuðu, rafsuðu og lóðningu málma eða með slípirokk, hitabyssu og önnur hitatæki. Markmið námskeiðsins er að þátttakendur öðlist hæfni til að vinna logavinnu af öryggi með því að lágmarka áhættu við vinnuna. Farið er yfir kröfur til starfsmanna, hegðun elds og slökkvistarf og slökkvibúnað. Einnig eldvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir til að hindra eldsvoða og slys vegna logavinnu. Jafnframt er fjallað um eldfim efni og sprengifimt umhverfi.

Námskeiðið á Sauðárkróki verður haldið í Farskólanum Faxatorgi fimmtudaginn 2. nóvember kl. 13-19. Unnt er að skrá sig á það á vef Iðunnar.

Námskeiðið á Akureyri verður haldið að Skipagötu 14 miðvikudaginn 15. nóvember kl. 13-19. Unnt er að skrá sig á það á vef Iðunnar.

Fullt námskeiðsgjald er 25.000 kr. en 5.000 kr. fyrir aðila að Iðunni.

Skildu eftir svar