OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Aðeins tveir af þremur hafa prófað reykskynjarana á árinu

Tveir af hverjum þremur hafa prófað reykskynjara heimilisins á árinu samkvæmt nýrri könnun sem Gallup gerði fyrir Eldvarnabandalagið og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna fyrstu vikuna í desember. Könnunin sýnir að elsti aldurshópurinn er langduglegastur að prófa reykskynjarana en innan við helmingur yngsta aldurshópsins segir reykskynjara heimilisins hafa verið prófaða á árinu. Þeir sem eru líklegastir til að hafa prófað reykskynjara heimilisins eru 65 ára eða eldri og búa utan höfuðborgarsvæðisins.

Eldvarnabandalagið mælir með því að tveir eða fleiri virkir reykskynjarar séu á hverju heimili. Til þess að tryggja að þeir séu virkir þarf að prófa þá reglulega og alls ekki sjaldnar en árlega. Algengast er að skipta þurfi um rafhlöðu ár hvert. Líftími reykskynjara er yfirleitt um tíu ár.

Nýleg dæmi eru um eldsvoða á heimilum þar sem reykskynjarar voru vissulega fyrir hendi en virkuðu ekki. Þannig var haft eftir slökkviliðsstjóra Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins á mbl.is í gær að engir virkir reykskynjarar hafi verið í íbúð við Miklubraut þegar eldur kom þar upp aðfararnótt þriðjudags. Það hafi viljað tveimur mönnum sem þar voru til happs að annar þeirra var vakandi þegar eldurinn kom upp. Segir í frétt mbl.is að mikil mildi þyki að ekki fór verr. Í öðru nýlegu tilviki kom upp eldur í íbúð þar sem voru þrír reykskynjarar en enginn þeirra virkur. Það vildi íbúum þar til að vegfarandi varð var við eldinn og gat gert viðvart svo íbúarnir björguðust út úr brennandi íbúðinni.

Könnun Gallup var gerð 1.-7. desember síðastliðinn. Fjöldi svarenda var 845 og þátttökuhlutfall 60,8 prósent. Niðurstöðurnar má sjá hér: 4026396_mannvirkjastofnun_reykskynjarar_081216.

Skildu eftir svar