Dagur reykskynjarans er í dag – eru þínir í lagi?

Dagur reykskynjarans er í dag, 1. desember, og af því tilefni hvetur Eldvarnabandalagið alla til að prófa reykskynjarana á heimilinu og skipta um rafhlöður eftir þörfum. Sé enginn eða aðeins einn reykskynjari á heimilinu er ágætt tilefni til þess nú í byrjun aðventu að fjölga reykskynjurum og auka þannig öryggi heimilisfólks.

Samkvæmt nýlegri könnun sem Gallup gerði fyrir Eldvarnabandalagið og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna er enginn eða aðeins einn reykskynjari á 28 prósent heimila. Þetta hlutfall hefur lækkað úr 38,4 frá árinu 2006 þegar Gallup byrjaði að kanna ástand eldvarna á íslenskum heimilum. Á sama tíma hefur heimilum með fjóra reykskynjara eða fleiri fjölgað úr 21,5 prósent í 31,9 prósent eða um 50 prósent á tíu árum.

Könnun Gallup leiðir í ljós að tveir hópar fólks standa lakar að vígi en aðrir þegar kemur að eldvörnum; leigjendur og ungt fólk. Þannig segja 15 prósent þeirra sem búa í leiguhúsnæði að enginn reykskynjari sé á heimilinu en þetta hlutfall er að meðaltali um fimm prósent. Önnur 40 prósent leigjenda segja aðeins einn reykskynjara á heimilinu og því er 55 prósent þeirra sem búa í leiguhúsnæði með engan eða aðeins einn skynjara á meðan meðaltalið er 28 prósent sem fyrr segir.

Kannanir Gallup fyrir Eldvarnabandalagið og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sýna ótvírætt að ástand eldvarna á heimilum landsmanna fer smám saman batnandi. Þannig er nú allt í senn reykskynjari, slökkvitæki og eldvarnateppi á um helmingi heimila.

Nýjustu könnun Gallup má nálgast hér: 4026396_mannvirkjastofnun_111016

Skildu eftir svar