OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Átak í eldvörnum í Fjarðabyggð

49904cc3dcbcf63eFjarðabyggð hefur gert samkomulag við Eldvarnabandalagið um að efla eldvarnir heimila og stofnana sveitarfélagsins. Fulltrúar Fjarðabyggðar og Eldvarnabandalagsins undirrituðu samkomulagið í slökkvistöðinni á Reyðarfirði 2. júní.

Í því felst að sveitarfélagið innleiðir eigið eldvarnaeftirlit nú í haust samkvæmt leiðbeiningum, gátlistum og öðrum gögnum sem Eldvarnabandalagið hefur gefið út. Einnig verður fræðsla um eldvarnir veitt samhliða úthlutun húsaleigubóta, en eldvarnir hafa reynst lakari í leiguhúsnæði en hjá þeim sem búa í eigin húsnæði samkvæmt könnunum Gallup.

Fjarðabyggð er fyrsta sveitarfélagið á Austurlandi sem gerir samstarfssamning við Eldvarnabandalagið en áður hafa Akranes, Akureyri og Húnaþing vestra gert sambærilega samninga. Að sögn Páls Björgvins Guðmundssonar bæjarstjóra hafa sveitarfélög ríkum skyldum að gegna varðandi opinbert eldvarnaeftirlit og rekstur slökkviliða. Samstarfið bjóði upp á nýjar leiðir til að auka öryggi íbúa þar sem byggt er á reynslu Eldvarnabandalagsins og efni sem það hefur gefið út. „Þá er ekki síður mikilvægt að sveitarfélög gangi á undan með góðu fordæmi og vonumst við til að samstarfið við Eldvarnabandalagið skili sér í aukinni vitund innan sveitarfélagsins um mikilvægi eldvarna,“ segir Páll Björgvin.

Eldvarnabandalagið hefur útbúið leiðbeiningar og önnur gögn vegna eigin eldvarnaeftirlits fyrirtækja og stofnana og verða þau höfð til hliðsjónar í samstarfinu við Fjarðabyggð. Gögnin eru öll aðgengileg hér vefnum. Þjálfaðir verða eldvarnafulltrúar sem annast eftirlit með eldvörnum í stofnunum sveitarfélagsins samkvæmt gátlistum Eldvarnabandalagsins. Þá fá allir starfsmenn sveitarfélaganna fræðslu um eldvarnir á vinnustaðnum og heima fyrir og verður þeim afhent handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins.

Eldvarnabandalagið er samstarfsvettvangur um auknar eldvarnir á heimilum og vinnustöðum. Aðild að því eiga: Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, TM hf., Vátryggingafélag Íslands hf. og Vörður tryggingar hf.

Skildu eftir svar