Nær 70 prósent aðspurðra prófuðu reykskynjarana sína á síðasta ári samkvæmt könnun sem Gallup gerði fyrir Eldvarnabandalagið í desember síðastliðnum. Þegar sams konar könnun var gerð í desember 2016 sögðust 66 prósent hafa prófað reykskynjarana en 69 prósent nú. Áberandi er hve illa fólk á aldrinum 25-34 ára kemur út úr könnuninni miðað við þá sem eldri eru. Það er í samræmi við könnun sem Gallup gerði fyrir Eldvarnabandalagið síðastliðið haust þar sem í ljós kom að fólk á aldrinum 25-34 ára er mun ólíklegra en aðrir til að hafa nauðsynlegan eldvarnabúnað á heimilinu, það er reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi.
Aðeins 65 prósent fólks á aldrinum 25-34 ára sögðust hafa prófað reykskynjarana á árinu. Hlutfallið var hins vegar 75 prósent hjá 45-54 ára og 80 prósent hjá þeim sem eru 65 ára og eldri. Að sama skapi kemur Reykjavík illa út í samanburði við önnur sveitarfélög. Hlutfall þeirra sem svöruðu játandi var aðeins 62 prósent í Reykjavík en 71 prósent í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur og 74 prósent í sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins.
Eldvarnabandalagið mælir eindregið með því að reykskynjarar séu prófaðir fjórum sinnum á ári og að skipt sé um rafhlöðu í þeim árlega. Það á við um flestar gerðir reykskynjara en einnig eru komnir á markað reykskynjarar með rafhlöðu sem endist í tíu ár. Líftími reykskynjara er yfirleitt um tíu ár.