Eldurinn sem kom upp í einbýlishúsi við Skagabraut á Akranesi 29. júní kviknaði út frá spjaldtölvu sem lá í sófa og ofhitnaði með þessum afleiðingum. Frá þessu segir á fréttavefnum mbl.is. Heimilið var mannlaust þegar eldurinn varð laus og fjölskyldan missti aleiguna.
Mbl.is segir að samkvæmt rannsókn hafi tölvan legið á milli sessa í sófanum. Hún hafi ekki verið í hleðslu en að líklegt sé talið að opin forrit hafi valdið því að hún ofhitnaði.
Í fréttinni er haft eftir fulltrúum tryggingafélaga að nokkrum sinnum á ári sé tilkynnt um eld vegna snjalltækja. Í einu tilviki olli snjallsími sem lá undir sæng því að eldur kom upp. Haft er eftir slökkviliðsmanni að aldrei sé of varlega farið með þessi tæki. Þau þurfi að hafa á stað þar sem loftar um þau og sérstaka aðgát ber að sýna þegar snjalltæki eru í hleðslu.