Hópmynd yfir salinn

Eigið eldvarnaeftirlit í brennidepli á ársfundi

Í setningarávarpi sínu á ársfundi Eldvarnabandalagsins í gær undirstrikaði Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, meðal annars mikilvægi samstarfs og rannsókna í forvarnastarfi. Sigrún fagnaði því jafnframt að sveitarfélög skuli nú ganga á undan með góðu fordæmi með innleiðingu eigin eldvarnaeftirlits.

Sigrún sagðist vona að þau sveitarfélög sem nú veita ákveðna forystu í innleiðingu eigin eldvarnaeftirlits og eldvarnafræðslu fyrir starfsmenn sína verði öðrum sveitarfélögum, fyrirtækjum og stofnunum fyrirmynd þegar fram líða stundir

Ársfundurinn var haldinn í slökkvistöð SHS á Tunguhálsi í Reykjavík. Ársfundurinn var sá sjötti í röðinni og sá fjölmennasti frá upphafi. Talsverð áhersla var lögð á umfjöllun um innleiðingu eigin eldvarnaeftirlits, enda er það meðal áhersluverkefna Eldvarnabandalagsins. Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri á Akranesi, gerði grein fyrir innleiðingu eigin eldvarnaeftirlits hjá Akraneskaupstað sem fram fór í samvinnu við Eldvarnabandalagið. Um 30 eldvarnafulltrúar annast nú eigið eldvarnaeftirlit í stofnunum bæjarins. Árangurinn lofar góðu en gerð verður sameiginleg greinargerð í haust um hvernig til tókst.

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðsins, fjallaði um rafrænt eldvarnaeftirlit og ræddi meðal annars möguleika á að gera eigið eftirlit samkvæmt gátlistum rafrænt. Þá ræddi Martha Óskarsdóttir, verkefnastjóri hjá Slökkviliði Akureyrar, um væntingar Akureyrarbæjar til eigin eldvarnaeftirlits og Guðmundur Gunnarsson, fagstjóri eldvarna hjá Mannvirkjastofnun, gerði grein fyrir brunatjóni á síðasta ári.

Loks opnaði Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar, formlega nýjan vef Eldvarnabandalagsins. Hér á vefnum eru öll útgefin gögn Eldvarnabandalagsins aðgengileg en auk þess verður vefurinn vettvangur umfjöllunar um eldvarnir og verkefni Eldvarnabandalagsins hverju sinni.