Samstarf Eldvarnabandalagsins og Fjarðabyggðar hefur orðið til þess að efla eldvarnir bæði í stofnunum sveitarfélagsins og á heimilum starfsmanna að mati Guðmundar Helga Sigfússonar, slökkviliðsstjóra Slökkviliðs Fjarðabyggðar. Samstarf aðila um auknar eldvarnir hófst á síðasta ári og lauk nýverið með gerð árangursmats og sameiginlegrar greinargerðar um hvernig til tókst.
Aðilar gerðu með sér samkomulag til eins árs um auknar eldvarnir snemma sumars 2016 og hófst undirbúningur verkefnisins um haustið. Fengu starfsmenn sveitarfélagsins þá fræðslu um eldvarnir á vinnustað og heima fyrir. Skipaðir voru eldvarnafulltrúar í stofnunum sveitarfélagsins og Fjarðabyggð innleiddi eigið eldvarnaeftirlit í nóvember.
Guðmundur Helgi telur að samstarfið hafi skilað vakningu í eflingu eldvarna í stofnunum Fjarðabyggðar. Að auki hafi endurbótum og eftirfylgni með lagfæringum á eldvörnum verið betur sinnt þar og starfsmenn hafi frekar auga með slíku.
Hann er einnig sannfærður um að fræðslan hafi skilað sér í bættum eldvörnum á heimilum starfsfólks og byggir það meðal annars á samtölum við seljendur eldvarnabúnaðar á svæðinu. Niðurstöður spurningakönnunar sem lögð var fyrir eldvarnafulltrúa Fjarðabyggðar benda eindregið til þess að verkefnið hafi skilað árangri í bættum eldvörnum á heimilum og vinnustöðum og kemur þar fram ríkur vilji til að halda eigin eldvarnaeftirliti í stofnunum Fjarðabyggðar áfram.
Greinargerðin hefur verið kynnt í stjórn Eldvarnabandalagsins. Hún var einnig kynnt í bæjarráði Fjarðabyggðar í vikunni og var slökkviliðsstjóra falið að útfæra eftirfylgni verkefnisins.