Samstarf Eldvarnabandalagsins og Akureyrarbæjar hefur skilað auknum eldvörnum í stofnunum bæjarins og á heimilum starfsmanna. Þetta er niðurstaða sameiginlegrar greinargerðar og árangursmats samstarfsaðilanna. Greinargerðin var kynnt í bæjarráði Akureyrar og í stjórn Eldvarnabandalagsins nýverið.
Stofnað var til samstarfsins með samkomulagi vorið 2016 og um haustið innleiddi Akureyrarbær eigið eldvarnaeftirlit í stofnunum sínum. Slökkvilið Akureyrar annaðist fræðslu fyrir eldvarnafulltrúa og veitti auk þess starfsfólki bæjarins fræðslu um eldvarnir bæði á vinnustað og heima fyrir. Stuðst var við efni Eldvarnabandalagsins við fræðsluna.
– Okkur þykir verkefnið hafa gengið vel og skilað árangri og munum halda ótrauð áfram eigin eldvarnaeftirliti nú þegar formlegu samstarfi við Eldvarnabandalagið er lokið, segir Dagný M. Harðardóttir, forstöðumaður upplýsinga- og þjónustudeildar Akureyrarbæjar. Hún er jafnframt formaður forvarna- og öryggisnefndar sem hefur haft umsjón með verkefninu af hálfu bæjarins.
Niðurstöður könnunar sem gerð var meðal eldvarnafulltrúa bæjarins bendir eindregið til að verkefnið hafi skilað árangri. Þeir segja nær allir sem einn að fræðsla um eldvarnir heimilisins hafi haft jákvæð áhrif á eldvarnir heima hjá þeim. Meðal helstu niðurstaðna könnunarinnar eru:
- Um 65% telja að frekar eða mjög vel hafi gengið að lagfæra atriði sem athugasemdir voru gerðar við og 94% telja að störf þeirra sem eldvarnafulltrúar hafi leitt til betri eldvarna á vinnustaðnum.
- Um 60% telja að meðvitund um mikilvægi eldvarna á vinnustaðnum hafi aukist vegna verkefnisins.
- Nær 90% telja að Akureyrarbær eigi að halda áfram eigin eldvarnaeftirliti að loknu samstarfi við Eldvarnabandalagið.
Athyglisvert er að mikill meirihluti eldvarnafulltrúanna sem svöruðu kallar eftir því að komið verði á sameiginlegum vettvangi fyrir eldvarnafulltrúa, svo sem með sérstakri Facebook-síðu og/eða árlegum fundi með slökkviliðsstjóra og forvarna- og öryggisnefnd. Nefndin hyggst bregðast við þessu ákalli.