Átta sveitarfélög hafa ákveðið að innleiða verklagsreglur Eldvarnabandalagsins um logavinnu og logaleyfi. Dalvíkurbyggð reið á vaðið í júní síðastliðnum en síðan hafa Vestmannaeyjabær og sveitarfélögin sex sem standa að Bunavörnum Austurlandi gert slíkt hið sama. Innleiðing verklagsreglna um logavinnu er liður í því að sveitarfélögin taka upp eigið eldvarnaeftirlit í stofnunum sínum í samvinnu við Eldvarnabandalagið.
Eldvarnabandalagið hefur gefið út verklagsreglur um logavinnu og logaleyfi sem fyrirtækjum og stofnunum er velkomið að innleiða. Markmið reglnanna er að koma á öruggu verklagi til að draga úr eldhættu vegna logavinnu/heitrar vinnu. Logavinna/heit vinna er meðal annars vinna með slípirokk, rafsuða, logsuða og önnur vinna þar sem notaður er opinn eldur, svo sem við lagningu þakpappa og viðhald á honum. Auknar eldvarnir og öryggi við logavinnu er eitt af áhersluverkefnum Eldvarnabandalagsins enda verður iðulega mikið tjón og hætta skapast þegar ekki er rétt staðið að slíkri vinnu.
Samkvæmt reglunum getur logavinna ekki farið fram nema að fengnu logaleyfi sem ábyrgðarmaður/eldvarnafulltúi og verktaki/starfsmaður staðfesta með undirskrift. Í logaleyfi eru tilgreindar þær varúðarreglur sem viðhafðar verða vegna verksins. Logaleyfi gildir ekki lengur en í einn sólarhring í senn.