Reykskynjari sannaði heldur betur gildi sitt þegar eldur kom upp í þurrkara í íbúð í Reykjavík um helgina. Samkvæmt frétt visir.is var Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins kallað út eftir að tilkynning barst um reyk og brunalykt í kjallara í Eskihlíð. Reykskynjari fór í gang og var búið að slökkva eldinn þegar slökkvilið kom á staðinn. Haft er eftir varðstjóra slökkviliðsins í fréttinni að reykskynjari hafi látið vita um reykinn og þannig sannað gildi sitt.
Eldvarnabandalagið ráðleggur almenningi að hafa að lágmarki tvo virka reykskynjara á heimilinu. Samkvæmt könnunum sem Gallup hefur gert fyrir Eldvarnabandalagið og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna er alltof algengt að enginn eða aðeins einn reykskynjari sé á heimilum landsmanna. Þetta á sérstaklega við heimili ungs fólks og leigjenda.