Eldvarnabandalagid2

Akureyri og Húnaþing vestra í átak í eldvörnum

Fulltrúar Húnaþings vestra og Eldvarnabandalagsins við undirritun samkomulagsins.
Fulltrúar Húnaþings vestra og Eldvarnabandalagsins við undirritun samkomulagsins í gær. Sitjandi frá vinstri: Garðar H. Guðjónsson, verkefnastjóri Eldvarnabandalagsins, Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar, Guðný Hrund Karlsdóttir sveitarstjóri og Pétur Arnarsson slökkviliðsstjóri. Efri myndin var tekin á Akureyri. Sitjandi frá vinstri: Garðar, Björn, Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri og Ólafur Stefánsson slökkviliðsstjóri.

Akureyrarbær og Húnaþing vestra hafa gert samkomulag við Eldvarnabandalagið um að efla eldvarnir á heimilum og í stofnunum sveitarfélaganna. Samstarfið felur í sér að sveitarfélögin innleiða eigið eldvarnaeftirlit í stofnunum sínum í haust samkvæmt leiðbeiningum, gátlistum og öðrum gögnum sem Eldvarnabandalagið hefur gefið út. Þá verður fræðslu um eldvarnir beint að umsækjendum um húsaleigubætur en rannsóknir sýna að eldvarnir eru mun lakari í leiguhúsnæði en hjá þeim sem búa í eigin húsnæði.

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, segir áhugavert að vera með fyrstu sveitarfélögum til að innleiða eigið eldvarnaeftirlit samkvæmt forskrift Eldvarnabandalagsins.
– Sveitarfélög hafa samkvæmt lögum ríkar skyldur í eldvörnum með rekstri slökkviliðs og opinberu eldvarnaeftirliti. Með samstarfinu við Eldvarnabandalagið förum við nýjar leiðir til að efla eldvarnir og öryggi fólks og njótum þar reynslu Eldvarnabandalagsins og efnis sem það hefur gefið út, segir Eiríkur Björn.

Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, tekur í sama streng. Hún segir mikilvægt að sveitarfélög gangi á undan með góðu fordæmi í þessum efnum.
– Það er mjög mikilvægur liður í samstarfinu við Eldvarnabandalagið að allt starfsfólk sveitarfélagsins mun fá fræðslu um eldvarnir bæði á vinnustaðnum og heima. Það er líklegt til að auka vitund fólks um eldvarnir og hafa áhrif á eldvarnir í stofnunum Húnaþings vestra, segir Guðný Hrund.

Eldvarnabandalagið hefur útbúið leiðbeiningar og önnur gögn vegna eigin eldvarnaeftirlits fyrirtækja og stofnana og verða þau höfð til hliðsjónar í samstarfinu við Akureyrarbæ og Húnaþing vestra. Þjálfaðir verða eldvarnafulltrúar sem annast eftirlit með eldvörnum í stofnunum sveitarfélaganna samkvæmt gátlistum Eldvarnabandalagsins. Þá fá allir starfsmenn sveitarfélaganna fræðslu um eldvarnir á vinnustaðnum og heima fyrir og verður þeim afhent handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins. Eldvarnabandalagið leggur til allt efni og ráðgjöf án endurgjalds.

Eldvarnabandalagið er samstarfsvettvangur um auknar eldvarnir á heimilum og vinnustöðum. Aðild að því eiga: Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, TM hf., Vátryggingafélag Íslands hf. og Vörður tryggingar hf.

Skildu eftir svar