ÞÓRSHÖFN

Langanesbyggð eflir eldvarnir samkvæmt nýsamþykktri eldvarnastefnu

Sveitarstjórn Langanesbyggðar hefur samþykkt eldvarnastefnu sem felur meðal annars í sér að sveitarfélagið innleiðir eigið eldvarnaeftirlit í samstarfi við Eldvarnabandalagið. Eldvarnastefnan er sett í samræmi við samning sem sveitarfélagið og Eldvarnabandalagið gerðu í vor. Í samningnum er gert ráð fyrir að Langanesbyggð tilnefni eldvarnafulltrúa sem annist mánaðarlegt og árlegt eldvarnaeftirlit í stofnunum og húsnæði sveitarfélagsins. Þeir fá fræðslu samkvæmt gögnum Eldvarnabandalagsins. Þá er gert ráð fyrir að allt starfsfólk sveitarfélagsins fái fræðslu um eldvarnir á bæði heimili og vinnustað og eintak af handbók um eldvarnir heimilisins. Eldvarnabandalagið leggur til allt fræðsluefni án endurgjalds en Slökkvilið Langanesbyggðar annast fræðslu fyrir eldvarnafulltrúa og starfsfólk.

Markmið eldvarnastefnu sveitarfélagsins er að auka skilning og öryggi starfsfólks, skjólstæðinga og viðskiptavina á eldvörnum, með það að leiðarljósi að draga úr líkum á slysum á fólki og tjóni á rekstri og eignum. Einnig að viðhalda þeirri fjárfestingu sem liggur í eldvarnabúnaði.

Markmiðum sínum hyggst sveitarfélagið ná með eftirfarandi hætti:

  • Fela eldvarnafulltrúa/eldvarnafulltrúum að viðhafa mánaðarlegt og árlegt eldvarnaeftirlit samkvæmt gátlistum og gera úrbætur í samræmi við ábendingar, sbr. reglugerð nr. 723/2017 um eldvarnir og eldvarnaeftirlit.
  • Greina og draga úr eldhættu í samvinnu við starfsfólk og eftir atvikum utanaðkomandi ráðgjafa.
  • Innleiða verklagsreglur Eldvarnabandalagsins um logavinnu. Logavinna fer ekki fram í húsnæði stofnunar nema samkvæmt logaleyfi sem byggir á verklagsreglum.
  • Veita starfsfólki fræðslu um grunnatriði eldvarna og brýna fyrir því að lagfæra það sem aflaga fer eða láta næsta yfirmann vita af hugsanlegum ágöllum.
  • Hafa ávallt í gildi rýmingaráætlun, uppfæra hana eftir þörfum og æfa reglulega eða eigi sjaldnar en árlega.

Framkvæmd eldvarnastefnu er á ábyrgð forstöðumanns hverrar stofnunar fyrir sig. Kynna skal eldvarnastefnu fyrir starfsfólki og brýna fyrir því ábyrgð alls starfsfólks á eftirliti með eldvörnum.

Skildu eftir svar