Grundarfjörður

Vitundarvakning um eldvarnir í Grundarfirði eftir samstarf við Eldvarnabandalagið

Samstarf Grundarfjarðarbæjar og Eldvarnabandalagsins leiddi til vitundarvakningar um mikilvægi eldvarna hjá sveitarfélaginu og mörgum íbúum. Samstarfið skilaði sér í auknum eldvörnum á vinnustöðum sveitarfélagsins og á heimilum starfsfólks. Auk þess var gert átak til að auka eldvarnir á heimilum eldri borgara í bænum. Þetta kemur fram í árangursmati og sameiginlegri greinargerð aðila. Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri, Valgeir Magnússon slökkviliðsstjóri og Garðar H. Guðjónsson, framkvæmdastjóri Eldvarnabandalagsins, skrifa undir greinargerðina.

Grundarfjarðarbær og Eldvarnabandalagið gerðu í september 2020 með sér samning um að auka eldvarnir hjá sveitarfélaginu og á heimilum starfsfólks. Í kjölfarið setti Grundarfjarðarbær sér eldvarnastefnu sem meðal annars gerir ráð fyrir að eigið eldvarnaeftirlit fari fram í stofnunum sveitarfélagsins. Sveitarfélagið tileinkaði sér jafnframt verklagsreglur Eldvarnabandalagsins um logavinnu. Eldvarnabandalagið lagði til allt fræðsluefni án endurgjalds.

Helstu niðurstöður greinargerðarinnar eru eftirfarandi:

  • Framkvæmd eigin eldvarnaeftirlits hefur gengið vel og stuðlað að auknum eldvörnum í stofnunum sveitarfélagsins.
  • Fræðsluefni Eldvarnabandalagsins reyndist vel.
  • Fræðsla fyrir starfsfólk um eldvarnir á vinnustað og heimili skilaði árangri.
  • Samstarfsverkefnið leiddi til átaks í aukningu eldvarna á heimilum eldra fólks í bænum.
  • Verkefnið leiddi til þess að ungmenni fengu fræðslu um eldvarnir.
  • Vitundarvakning hefur orðið hjá sveitarfélaginu um mikilvægi eldvarna.
  • Þekking á eldvörnum í stofnunum bæjarins hefur aukist.
  • Eigin eldvarnaeftirlit sveitarfélagsins hefur auðveldað og einfaldað eldvarnaeftirlit slökkviliðs og aukið árangur af því.
  • Grundarfjarðarbær hyggst halda áfram eigin eldvarnaeftirliti í samræmi við eldvarnastefnu sveitarfélagsins.

Slökkvilið Grundarfjarðar annaðist fræðslu fyrir eldvarnafulltrúa og annað starfsfólk. Skipaðir voru sex eldvarnafulltrúar og hafa þeir síðan haldið úti eigin eldvarnaeftirliti. Slökkviliðið hélt fræðslufundi um eldvarnir á vinnustað og heimili fyrir starfsfólk Grundarfjarðarbæjar og segir Valgeir að starfsfólkið hafi sýnt efninu mikinn áhuga. Hann er sannfærður um að fræðslan hafi haft jákvæð áhrif á eldvarnir á heimilum starfsfólks. Brögð voru jafnvel að því að fólk bæði slökkvilið að koma í heimsókn til að fara yfir eldvarnir heimila þess.

Valgeir og Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri segja engan vafa leika á að verkefnið hafi haft margvísleg og áþreifanleg áhrif á eldvarnir bæði á vinnustöðum og heimilum í bænum. Gerðar hafa verið úrbætur á eldvörnum í stofnunum sveitarfélagsins bæði í stóru og smáu. Forstöðumenn voru hvattir til að fara yfir eftirlitsskýrslur slökkviliðsstjóra og bæta úr því sem þar var talið aðfinnsluvert. Lagt hefur verið í talsverðan kostnað við að bæta flóttaleiðir, svo sem í grunnskólanum þar sem flóttaleið á efri hæð er út á þak. Gera þurfti breytingar á þakinu til að auka öryggi barna og starfsfólks og koma fyrir fellistiga. Gerðar voru skrifborðsæfingar í ráðhúsinu og leikskóla og farið yfir rýmingaráætlanir.

Verkefnið var svo víkkað út með því að farið var í 15 kaupréttaríbúðir fyrir eldri borgara, sem eru á vegum sveitarfélagsins, og gerðar úrbætur á eldvörnum; bætt við reykskynjurum, íbúum gefið handslökkvitæki og því komið fyrir, sem og eldvarnateppi í eldhús þar sem það var ekki fyrir hendi. Þá fóru sveitarfélagið og starfsmannafélag slökkviliðsins í samstarf við Félag eldri borgara til að bæta almennt ástand eldvarna á heimilum fólks sem er 60 ára og eldra. Starfsmannafélag slökkviliðsins lagði til reykskynjara og var öllum eldri borgurum boðið að fá heimsókn starfsmanns slökkviliðsins í því skyni að fjölga reykskynjurum. Heimsótt voru 28 heimili og settir upp rúmlega 60 reykskynjarar. Eldvörnum á heimilum eldri borgara reyndist víða ábótavant. Þær voru ýmist ekki fyrir hendi eða búnaður úreltur.

Slökkviliðið veitti einnig 13-16 ára börnum í vinnuskólanum og sumarstarfsfólki hjá bænum og sundlauginni fræðslu um eldvarnir síðastliðið sumar.

Björg segir ljóst að samstarfið við Eldvarnabandalagið hafi breytt viðhorfi bæjaryfirvalda og fleiri til eldvarna og aukin vitund sé nú um að hafa þennan öryggisþátt í lagi. Þekking á eldvörnum hefur aukist í stofnunum bæjarins og sveitarfélagið er staðráðið í að halda áfram uppi öflugu eigin eldvarnaeftirliti. Á sama tíma og samstarfið við Eldvarnabandalagið stóð yfir var brunavarnaáætlun endurskoðuð og kostnaður lagður í búnaðarkaup fyrir slökkviliðið til að mæta markmiðum áætlunarinnar. Sú yfirferð átti einnig þátt í að ýta undir meðvitund um eldvarnir. Í framhaldi af innleiðingu og framkvæmd eigin eldvarnaeftirlits hefur verið horft til fleiri öryggismála, svo sem öryggis á leikvöllum.

 

Skildu eftir svar