eldhaettastilla

Fróðlegt myndband um eldhættu í landbúnaði

Gefið hefur verið út myndband um eldhættu í landbúnaði og ráðstafanir til að draga úr henni. Bændasamtökin, Eldvarnabandalagið, Brunavarnir Árnessýslu og Landbúnaðarháskóli Íslands stóðu að gerð myndbandsins, sem komið er í dreifingu á samfélagsmiðlum. Í framhaldinu verða kynnt myndbönd um afmörkuð efni sem tengjast eldhættu í landbúnaði; rafmagn, logavinnu og vinnuvélar. Fjallað er um mikilvægi þess að vanda til frágangs á rafbúnaði, kynntar nauðsynlegar varúðarreglur þegar unnið er með opinn eld og verkfæri sem valda neistaflugi og fjallað um geymslu vinnuvéla og ráðstafanir til að draga úr hættu á að eldur kvikni í þeim.

Verkefnið er liður í samstarfi Eldvarnabandalagsins og Bændasamtakanna um að efla eldvarnir í landbúnaði og á heimilum í dreifbýli sem staðið hefur undanfarin tvö ár.

Myndbandið er hið fyrsta í röð fimm fræðslumyndbanda um eldvarnir í landbúnaði sem aðilar hyggjast gefa út á næstu misserum. Unnið er að gerð myndbands um viðvörunarkerfi og síðan verður ráðist í gerð myndbanda um slökkvibúnað, vatnsöflun og loks um kröfur um eldvarnir í landbúnaðarbyggingum.

Myndbandið  má skoða hér.

Skildu eftir svar