Eldvarnabandalagið fagnar ákvæðum um auknar eldvarnir í leiguhúsnæði

Stjórn Eldvarnabandalagsins fagnar ákvæðum um auknar eldvarnir í frumvarpi innviðaráðherra til breytinga á húsaleigulögum. Þetta kemur fram í bókun sem samþykkt var á stjórnarfundi í gær. Í bókuninni segir ennfremur: „Kannanir sem Gallup hefur gert reglulega fyrir Eldvarnabandalagið sýna ítrekað að leigjendur búa almennt við lakari eldvarnir en aðrir. Úr því er brýnt að bæta og getur frumvarp innviðaráðherra verið mikilvægur liður í því, að mati stjórnar Eldvarnabandalagsins.“

Frumvarpinu er meðal annars ætlað að bæta eldvarnir í leiguhúsnæði og draga lærdóm af skelfilegum eldsvoða sem varð við Bræðraborgarstíg 1 í Reykjavík sumarið 2020 og kostaði þrjá einstaklinga lífið. Lagt er til í frumvarpinu að leigusali geri sérstaklega grein fyrir eldvörnum í leigusamningnum við upphaf leigusambands, samkvæmt niðurstöðu ástandsskoðunar.

Meðal þess sem gera þarf grein fyrir við úttekt húsnæðis og gerð leigusamnings er:

  • hvort slökkvitæki sé í íbúðinni;
  • hvort það hafi verið yfirfarið af þar til bærum aðila fyrir gerð leigusamningsins;
  • hvort reykskynjarar séu í öllum helstu rýmum, þar með töldum öllum svefnherbergjum, og þeir hafi verið prófaðir við úttektina;
  • hvort eldvarnateppi sé fyrir hendi í eldhúsi;
  • hvort flóttaleiðir úr húsnæðinu séu fullnægjandi.

„Með þessum breytingum er stuðlað að bættri vitund bæði leigusala og leigjanda um ástand brunavarna og nauðsynlegt viðhald þeirra,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra þegar hann mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi í síðustu viku, samkvæmt frétt á vef innviðaráðuneytisins.

 

Skildu eftir svar