mynd1

Gæðabakstur eflir eldvarnir á heimilum og vinnustöðum í samvinnu við Eldvarnabandalagið

Eldvarnabandalagið og Gæðabakstur hafa gert með sér samkomulag um að efla eldvarnir á heimilum starfsmanna og á vinnustöðum fyrirtækisins en það er með starfsemi á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri. Samkomulagið felur í sér að Gæðabakstur innleiðir eigið eldvarnaeftirlit í starfsemi sinni í vor. Tilnefndir verða eldvarnafulltrúar sem fá tilskilda fræðslu og annast síðan mánaðarlegt og árlegt eftirlit með eldvörnum á vinnustöðum fyrirtækisins samkvæmt gátlistum Eldvarnabandalagsins. Allt starfsfólk Gæðabaksturs fær jafnframt fræðslu um eldvarnir heimilisins og á vinnustað og eintak af handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins. Eldvarnabandalagið leggur til allt fræðsluefni án endurgjalds. Starfsmenn Gæðabaksturs eru 123 talsins.

Gert er ráð fyrir að fræðsla og annar undirbúningur fari fram í febrúar og mars og að eigið eldvarnaeftirlit verði framkvæmt hjá Gæðabakstri frá og með 1. apríl næstkomandi.

Eldvarnabandalagið hefur á undanförnum árum átt sambærilegt samstarf við fjölda sveitarfélaga og fyrirtækja með góðum árangri en Gæðabakstur er fyrsta fyrirtækið á höfuðborgarsvæðinu til að ganga til samstarfs við Eldvarnabandalagið. Að samstarfi loknu fer fram sameiginlegt árangursmat og hefur í öllum tilvikum komið í ljós að það hefur skilað sér í auknum eldvörnum bæði á heimilum starfsfólks og vinnustöðum.

Samkomulagið felur jafnframt í sér að Gæðabakstur innleiðir verklagsreglur Eldvarnabandalagsins um logavinnu, en í þeim er kveðið um á nauðsynlegar varúðarráðstafanir sem viðhafa þarf þegar unnið er með opinn eld eða neista. Ennfremur hefur Gæðabakstur sett sér eldvarnastefnu að fyrirmynd Eldvarnabandalagsins.

Skildu eftir svar