2020-09-09 10.19.25_edit

FISK-Seafood og Soffanías Cecilsson í átak um auknar eldvarnir á heimilum starfsfólks og vinnustað

Sjávarútvegsfyrirtækin FISK-Seafood á Sauðárkróki og Soffanías Cecilsson í Grundarfirði hafa samið við Eldvarnabandalagið um að efla eldvarnir á heimilum starfsfólks og starfsstöðvum fyrirtækjanna. Fyrirtækin taka upp reglulegt eigið eldvarnaeftirlit samkvæmt gátlistum Eldvarnabandalagsins nú í haust. Tilnefndir verða eldvarnafulltrúar sem fá tilskilda fræðslu og annast síðan mánaðarlegt og árlegt eftirlit með eldvörnum á vinnustöðum fyrirtækjanna. Starfsfólk fyrirtækjanna fær jafnframt fræðslu um eldvarnir heimilisins og á vinnustað og eintak af handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins. Eldvarnabandalagið leggur til allt fræðsluefni án endurgjalds en Brunavarnir Skagafjarðar og Slökkvilið Grundarfjarðar annast fræðslu fyrir eldvarnafulltrúa og starfsfólk.

Eldvarnabandalagið hefur á undanförnum árum átt sambærilegt samstarf við fjölda sveitarfélaga og fyrirtækja með góðum árangri. Að samstarfi loknu fer fram sameiginlegt árangursmat og hefur í öllum tilvikum komið í ljós að samstarfið hefur skilað sér í auknum eldvörnum bæði á heimilum starfsfólks og vinnustað.

Samkvæmt samkomulaginu innleiða fyrirtækin verklagsreglur Eldvarnabandalagsins um logavinnu, en í þeim er kveðið á um nauðsynlegar varúðarráðstafanir sem viðhafa þarf þegar unnið er með opinn eld eða neista. Er gert ráð fyrir að logavinna geti ekki farið fram í húsnæði fyrirtækjanna nema að útgefnu logaleyfi. Fyrirtækin setja sér einnig eldvarnastefnu að fyrirmynd Eldvarnabandalagsins, þar sem fjallað er um hvernig þau hyggjast standa að eldvörnum í húsnæði sínu.

Gert er ráð fyrir að fræðsla og annar undirbúningur fari fram í október og að eigið eldvarnaeftirlit verði framkvæmt hjá fyrirtækjunum frá og með 1. nóvember næstkomandi.

Skildu eftir svar