Fulltrúar Húnaþings vestra og Eldvarnabandalagsins við undirritun samkomulagsins.

Góður árangur af samstarfinu við Húnaþing vestra

Samstarf Eldvarnabandalagsins og Húnaþings vestra um eflingu eldvarna skilaði góðum árangri samkvæmt sameiginlegri greinargerð og árangursmati sem kynnt var á fundi stjórnar Eldvarnabandalagsins nýverið. Að mati Péturs Arnarssonar, slökkviliðsstjóra Brunavarna Húnaþings, skilaði verkefnið sér í auknum eldvörnum bæði á vinnustöðum sveitarfélagsins og heimilum starfsmanna. Greinileg aukning varð í sölu eldvarnabúnaðar og sveitarfélagið leggur nú ríkari áherslu á eldvarnir en áður.

Samkomulag Húnaþings vestra og Eldvarnabandalagsins um samstarf um auknar eldvarnir var undirritað á Hvammstanga 26. apríl 2016. Við sama tilefni var verkefnið kynnt forstöðumönnum stofnana. Undirbúningur að innleiðingu eigin eldvarnaeftirlits hófst 21. september sama ár með því að verkefnastjóri Eldvarnabandalagsins og slökkviliðsstjóri Brunavarna Húnaþings vestra héldu námskeið fyrir eldvarnafulltrúa og kynningarfund um eldvarnir fyrir starfsfólk.

Brunavarnir Húnaþings vestra tóku síðan við keflinu og héldu námskeið og kynningarfundi fyrir starfsfólk sveitarfélagsins. Langflestir starfsmenn fengu fræðslu veturinn 2016-2017 en fræðslu fyrir starfsfólk lauk snemma árs 2018. Eigið eldvarnaeftirlit hófst haustið 2016. Skipaðir voru sex eldvarnafulltrúar og sex til vara.

Pétur segir greinilegt að verkefnið hafi vakið fólk til aukinnar vitundar um mikilvægi eldvarna og telur að þessi viðhorfsbreyting hafi smitað út í samfélagið. Hann telur einnig að verkefnið hafi valdið viðhorfsbreytingu hjá stjórnvöldum í sveitarfélagsinu og þau hafi eindregið sett sér það markmið að hafa eldvarnir í lagi. Til marks um það má nefna að í fjárhagsáætlun yfirstandandi árs er gert ráð fyrir fjármunum til að efla eldvarnir, til dæmis í leikskóla, grunnskóla og í ráðhúsinu á Hvammstanga. Ráðist var í endurskipulagningu á öryggisvöktun og hún boðin út. Hjá bæði sveitarfélaginu og Brunavörnum Húnaþings vestra er eindreginn vilji til að halda eigin eldvarnaeftirliti áfram.

 

Skildu eftir svar