Eftir Vigdísi Häsler og Garðar H. Guðjónsson.
Á hverju ári verða því miður alvarlegir eldsvoðar í landbúnaði. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir helstu áhættuþáttum vegna elds á hverju býli og gera ráðstafanir til að draga úr eldhættu. Til þess eru ýmsar leiðir.
Rafmagnsbilanir, röng notkun eða uppsetning rafbúnaðar leiðir oft til eldhættu og eru ein algengasta orsök eldsvoða í landbúnaði. Rafbúnaður, raflagnir og tæki í landbúnaðarbyggingum eru gjarnan undir miklu álagi. Raki í lofti, ryk, titringur og slit hefur áhrif á endingartíma og öryggi tækja. Allur rafbúnaður skal vera viðurkenndur og frágangur þarf að taka mið af aðstæðum á hverjum stað. Alltaf skal leita aðstoðar fagfólks við uppsetningu á rafmagni eða við breytingar á rafmagni í útihúsum.
Gott er að láta fagmann yfirfara rafmagnstöflur og rafbúnað með reglubundnum hætti. Vel hefur gefist að nota hitamyndavél til þess að meta hvort óeðlilegur hiti myndast út frá lélegum rafmagnslögnum eða tækjabúnaði. Mjög mikilvægt er að frágangur rafmagnsbúnaðar sé óaðfinnanlegur og búnaður allur ryk- og rakaþéttur. Rafmagnstöflur eiga að vera í stál- eða plastskápum og staðsettar á vegg úr óbrennanlegum efnum. Góð jarðtenging og bilunarstraumsrofi (lekaliði) geta skipt sköpum. Fáið ráðgjöf fagmanns um hvaða lekaliði hentar aðstæðum.
Eldur í vinnuvélum
Nokkur dæmi eru hér á landi um að eldur komi upp í dráttarvélum þegar þær standa inni við og eru ekki í gangi. Tjónið sem af því hlýst er oft mikið þegar bæði vélar og byggingar skemmast. Svokallaður höfuðrofi minnkar líkur á sjálfsíkveikju í vélknúnum tækjum. Sláið honum út þegar tækið er ekki í notkun. Þannig er straumrás frá rafgeymi rofin. Gólf í vélageymslum eiga að vera þétt og með óbrennanlegu yfirborði. Veggir og þök skulu vera úr tregbrennanlegu efni og tryggja þarf góða brunahólfun. Gætið að því að hafa ekki eldsmat nærri vinnuvélum í geymslu.
Gaskúta þarf að meðhöndla með varúð og setja þarf merki með gulum þríhyrningi á útihurð sem gefur til kynna að gaskútar séu innan dyra. Slíkar merkingar eru ákaflega mikilvægar fyrir slökkviliðsmenn sem koma á vettvang eldsvoða. Einnig er áríðandi að upplýsa slökkvilið strax ef áburður er geymdur innandyra vegna sprengihættu sem getur stafað af ákveðnum tegundum áburðar við ofhitnun.
Aðgát við logavinnu
Við logavinnu eða vinnu sem veldur neistaflugi er nauðsynlegt að tryggja sem öruggast umhverfi. Fjarlægið brennanleg og eldfim efni, breiðið yfir þau eða bleytið. Viðeigandi slökkvibúnaður á alltaf að vera innan seilingar þegar unnin er logavinna. Ágætar leiðbeiningar um varúðarráðstafanir vegna logavinnu er að finna á vef Eldvarnabandalagsins, eldvarnabandalagid.is
Reynslan sýnir ótvírætt að sé maður meðvitaður um eldhættu á býlinu og geri viðeigandi ráðstafanir má draga verulega úr hættu á að eldur komi upp með tilheyrandi tjóni á eignum og rekstri.
Vigdís er framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands. Garðar er framkvæmdastjóri Eldvarnabandalagsins.
Greinin birtist í Bændablaðinu 4. apríl.