Málþing Eldvarnabandalagsins var haldið í Norræna húsinu fimmtudaginn 9. október sl. Þar var Atli Rútur Þorsteinsson, bygginga- og brunaverkfræðingur frá Örugg verkfræðistofu og formaður stjórnar Brunatæknifélags Íslands, með erindið: „Af litlum neista… Afleiðingar þess að lítill hlutur brennur en tjónið er gífurlegt.“

Í erindinu fjallaði hann um skilgreiningu brunavarna, flokkun brunatjóns og tók nokkur dæmi um hvernig mikið tjón getur orðið á byggingum þrátt fyrir að bruninn sé ekki stór. Mikið tjón getur t.d. orðið vegna reyks þegar það verður mikið sót, lykt og tæring. Það getur valdið tjóni út fyrir brunahólf eða byggingu

Í sumum tilfellum er brunaþéttingum ábótavant, eldur getur breiðst út um lagnaleiðir án brunaþéttinga og farið þá á milli brunahólfa. Hér skiptir réttur frágangur brunavarna sköpum. Einnig geta orðið mistök þegar hús fá nýtt hlutverk og er breytt án þess að nægilega vel sé hugað að brunavörnum. Þá hafa komið í ljós frávik varðandi frágang brunavarna en meiri áhætta er í breytingum á eldra húsnæði

Mikilvægt er að brunavörnum sé fylgt eftir alla leið frá hönnun til fullbúins mannvirkis. Huga þarf að samræmingu í líkönum og að tryggja gæði og öryggi mannvirkja almennt.