Með opinn eld að vopni

gardar
Garðar H. Guðjónsson

Í vorblíðunni að undanförnu hafa menn víða unnið við að leggja pappa á þök með opinn eld að vopni. Í ljósi reynslunnar eru líkur á að í mörgum tilvikum hafi varúðarráðstafanir verið af skornum skammti og eldvörnum áfátt. Slökkvilið og tryggingafélög þakka fyrir hvern dag sem líður án þess að eldur komi upp og verulegt tjón hlýst af slíkri vinnu.

Nokkrir af stærri eldsvoðum sögunnar hafa hlotist af vinnu með opinn eld. Mörg dæmi eru um eldsvoða þar sem tjón nemur hundruðum milljóna og jafnvel milljörðum að núvirði. Auk þess mikla tjóns sem verður  á eignum og rekstri þegar eldur kemst í pappa á þaki byggingar eru slíkir eldsvoðar slökkviliðum mjög erfiðir viðureignar.

Árangur á Norðurlöndum

bjarni kjartansson
Bjarni Kjartansson

Á Norðurlöndum öðrum en Íslandi hefur náðst mikill árangur í því að draga úr eldsvoðum vegna logavinnu með fræðslu fyrir þá sem vinna slíka vinnu. Raunar er það svo að í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku er engum heimilt að vinna slíka vinnu nema að fengnu sérstöku leyfi að undangengnu námi sem meðal annars lýtur að öryggismálum og eldvörnum. Þessi árangur hefur náðst með samstilltu átaki ýmissa hagsmunaaðila, tryggingafélaga samtaka í atvinnulífinu og fleiri.

Hér á landi má segja að lagning þakpappa lúti fáum reglum, engrar iðnmenntunar er þörf og engin sérstök leyfi þarf fyrir slíkri starfsemi eða einstakar framkvæmdir. Iðan fræðslusetur hefur í samvinnu við Eldvarnabandalagið á undanförnum misserum auglýst reglulega námskeið um eldvarnir við logavinnu eða heita vinnu. Auk logavinnu vegna lagningar þakpappa má í þessu sambandi nefna logsuðu, rafsuðu og skurð með slípirokki. Undirtektir hafa vægast sagt verið afar dræmar og því hafa aðeins fáeinir einstaklingar fengið staðgóða fræðslu um hvernig standa beri að eldvörnum við logavinnu. Þess ber að geta að nemendur í ýmsum iðngreinum fá grunnfræðslu um öryggismál og eldvarnir. Það á þó ekki við ófagmenntaða verktaka og starfsmenn í þakpappalögn.

Ábyrgð eigenda

Ábyrgð þeirra sem taka að sér slík verkefni er mikil en að sama skapi er vert að benda á ábyrgð eigenda og umsjónarmanna húsnæðisins. Þeim ber að sjálfsögðu að gera það sem í þeirra valdi stendur til að verja eigur sínar og starfsemi.

Afar mikilvægt er fyrir eigendur og umsjónarmenn fasteigna að hafa vara á þegar vinna þarf heita vinnu í húsnæði þeirra, hvort sem um er að ræða íbúðar- eða atvinnuhúsnæði. Raunar ætti logavinna aldrei að hefjast nema ábyrgðarmaður húsnæðis hafi gengið úr skugga um að nægilega sé gætt að eldvörnum og öryggi. Sé ekki rétt staðið að verkinu getur mikið tjón á eignum og rekstri hlotist af.

Eldvarnabandalagið er samstarfsvettvangur fyrirtækja, félagasamtaka og stofnana um auknar eldvarnir. Eitt af áhersluverkefnum samstarfsins er að leita leiða til úrbóta á þessu sviði.

Garðar H. Guðjónsson, verkefnastjóri Eldvarnabandalagsins

Bjarni Kjartansson, sviðsstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins

Greinin birtist í Fréttablaðinu 24. maí

Skildu eftir svar