Nauðsyn brunaviðvörunarkerfa í landbúnaði

Eftir Pétur Pétursson.

Því miður gerist það að gripahús í landbúnaði brenna. Þessu getur fylgt mikið fjárhagslegt tjón en ekki síður tilfinningalegt tjón. Ég held að allir sem þekkja eitthvað til sveitamennsku viti hversu PP ágúst 2019 01sterkum böndum bændur tengjast búfé sínu.

Mikið er af eldri byggingum til sveita sem hýsa búfénað og hafa gert í sumum tilvikum um margra áratuga skeið. Misjafnt er hvaða byggingareglugerðir voru í gildi á þeim tímum og þar með misjafnar kröfur gerðar á byggingarefni og byggingarhætti.

Nú í seinni tíð hefur hugarfar til landbúnaðarbygginga breyst nokkuð með tilliti til eldvarna og þess hversu nauðsynlegt er að menn verði varir við eldinn sem fyrst, komi til þess að kvikni í. Til þess að hægt sé að bregðast við á upphafsstigi eldsins og forða tjóni er algjört lykilatriði að fyrir hendi sé búnaður sem lætur vita í tíma. Tækninni hefur fleygt fram í landbúnaði eins og á öðrum sviðum og því oft og tíðum meira um allskyns rafmagns- og tölvubúnað sem ásamt öðrum þáttum geta aukið líkur á íkviknun, fari eitthvað úrskeiðis.

Í leiðbeiningablaði Mannvirkjastofnunar um landbúnaðarbyggingar nr. 116.BR1 segir að sjálfvirk brunaviðvörunarkerfi skuli alltaf setja upp í gripahúsum ef tæknibúnaður er í sama rými og gripirnir.

Reyksogskerfi

Vegna óhreininda og raka henta hefðbundin brunaviðvörunarkerfi oftast ekki vel og hafa menn því sett upp svokölluð reyksogskerfi sem henta betur í þessa tegund húsa. Þá eru sett upp einföld rörakerfi sem soga til sín loftsýni og leiða þau gegnum síur og rakagildrur áður en þau koma að reykskynjara sem staðsettur er við stjórnstöð kerfisins.

Nú eru til allskonar lausnir í smáforritum sem geta gert mönnum viðvart í gegnum farsíma um leið og reykskynjarinn sendir frá sér boð. Í mörgum tilfellum má koma í veg fyrir mikið tjón með þessum hætti.

Mikið er um lög og reglur á landinu okkar góða og þykir sumum nóg um. Hinsvegar ná lög og reglur ekki yfir alla hluti og hvers vegna ættu þau að gera það? Þegar um líf og velferð manna og dýra er að ræða ætti almenn skynsemi að fá okkur til þess að gera sem best í þessum efnum þó að það sé ekki fyrirskrifað í lög og reglur hvað nákvæmlega á að gera.

Fyrirhyggjusemi

Það er augljóst að dýr geta ekki bjargað sér sjálf út úr brennandi byggingum og því þurfum við að hafa kerfi sem lætur okkur vita svo við getum gripið inn í. Þá gilda ekki rökin „það gerist aldrei neitt hjá mér“ eða „þetta kostar allt of mikið“. Sem betur fer sleppa flestir í gegnum lífið án stórra áfalla, en þeir sem sleppa gera það oft vegna þess að þeir eru fyrirhyggjusamir. Hvað kostnað varðar má yfirleitt finna nokkrar leiðir að sama marki, hverja í sínum verðflokki.

Mörg útköll eru slökkviliðsmönnum erfið og eru útköll í landbúnaðarbyggingar þar sem skepnur hafa farist í eldi og/eða slasast mikið í flokki þeirra verkefna sem geta tekið mikið á. Það er með þessi útköll eins og svo mörg önnur sem menn myndu gjarnan vilja sleppa við. Það er til búnaður og verkþekking til þess að lágmarka líkurnar á að eldur nái að þróast og breiða úr sér í landbúnaðarbyggingum. Þetta er eitthvað sem allir viðkomandi ættu og þurfa að tileinka sér.

Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu og formaður Félags slökkviliðsstjóra, tók saman fyrir Eldvarnabandalagið. Greinin birtist áður í Bændablaðinu.

Skildu eftir svar