img_4877

Vel heppnað samstarf við Sveitarfélagið Skagafjörð um auknar eldvarnir

Samstarf Eldvarnabandalagsins og Sveitarfélagsins Skagafjarðar um innleiðingu og framkvæmd eigin eldvarnaeftirlits heppnaðist vel og skilaði tilætluðum árangri. Þetta kemur fram í sameiginlegri greinargerð og árangursmati vegna verkefnisins sem kynnt var í stjórn Eldvarnabandalagsins í gær. Ljóst er að samstarfið skilaði auknum eldvörnum bæði í stofnunum sveitarfélagsins og á heimilum starfsmanna.

Sveitarfélagið og Brunavarnir Skagafjarðar önnuðust fræðslu fyrir eldvarnafulltrúa og starfsfólk sveitarfélagsins um eldvarnir á vinnustað og heimili. Eigið eldvarnaeftirlit var innleitt í stofnunum sveitarfélagsins 1. febrúar 2019. Skipaðir voru rúmlega 20 eldvarnafulltrúar sem önnuðust mánaðarlegt og árlegt eftirlit samkvæmt gátlistum Eldvarnabandalagsins, sem lagði til allt fræðsluefni án endurgjalds.

Svavar Atli Birgisson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Skagafjarðar, segir verkefnið hafa haft mikinn meðbyr og skilað tilætluðum árangri, hvort sem litið er til eldvarna á vinnustöðum eða heimilum. Hann fann fyrir auknum áhuga á eldvörnum og aukinni sölu á eldvarnabúnaði. Spurningakönnun sem gerð var meðal eldvarnafulltrúa sveitarfélagsins bendir einnig eindregið til þess að verkefnið hafi skilað sér í auknum eldvörnum. Alls sögðu 82 prósent þeirra að störf þeirra sem eldvarnafulltrúi hafi skilað auknum eldvörnum á vinnustaðnum og meirihluti telur að meðvitund um mikilvægi eldvarna á vinnustaðnum hafi aukist eftir innleiðingu eigin eldvarnaeftirlits. Þá segja 94 prósent að fræðsla sem þau fengu um eldvarnir heimilisins hafi haft jákvæð áhrif á eldvarnir heima hjá þeim. Mikill meirihluti eldvarnafulltrúa telur að halda eigi framkvæmd eigin eldvarnaeftirlits áfram að loknu samstarfi við Eldvarnabandalagið.

Eldvarnabandalagið hefur átt sambærilegt samstarf við fjölda sveitarfélaga og slökkviliða víða um land á undanförnum árum og bendir sambærilegt mat á árangri til þess að samstarfið hafi skilað sér í auknum eldvörnum eins og að var stefnt.

Skildu eftir svar