Eldvarnir á heimilum í dreifbýli

Eftir Garðar H. Guðjónsson

Íbúar í þéttbýli eiga því að venjast að ef hringt er í 112 í neyðartilvikum eru viðbragðsaðilar á borð við slökkvilið og lögreglu mættir til aðstoðar eftir fimm til sjö mínútur. Ef eldur kemur upp á gardarheimilum eru viðbragðsaðilar snöggir á staðinn og yfirleitt gengur vel að ráða niðurlögum elds sem ekki hefur náð að breiðast út að ráði. Þessu er ekki að heilsa í dreifbýli. Þar er viðbragðstími fremur mældur í stundarfjórðungum en mínútum. Því er afar mikilvægt að fólk sem býr í dreifbýli hugi vel að eldvörnum heimilisins og geri sér grein fyrir hvernig hægt er að undirbúa sem best komu slökkviliðs á neyðarstundu.

Reykskynjarar

Í aðalatriðum gilda sömu lögmál um eldvarnabúnað á heimilum til sveita og í þéttbýli. Mikilvægast er að tryggja að íbúar fái viðvörun ef eldur kemur upp og allir komist út heilir á húfi. Eldvarnabandalagið mælir með því að reykskynjarar séu settir upp í öllum rýmum. Þá á að minnsta kosti að setja upp framan við eða í hverri svefnálmu og á hverri hæð á heimilinu. Í langan gang skal setja skynjara við báða enda.

Sömu reglur um notkun og staðsetningu reykskynjara gilda fyrir sumarhús. Sérstaklega ber að huga að því að þeir sem sofa á svefnlofti fái viðvörun svo að þeir geti yfirgefið húsið ef eldur kemur upp. Einnig þarf að gæta þess að þeir hafi tvær flóttaleiðir af loftinu.

Yfirleitt þarf að skipta um rafhlöður í reykskynjurum ár hvert og mælt er með því að reykskynjarar séu prófaðir eigi sjaldnar en árlega, helst oftar.

Flóttaleiðir og slökkvibúnaður

Nauðsynlegt er að fjölskyldan geri áætlun um hvernig yfirgefa á heimilið ef eldur kemur upp því slík áætlun getur ráðið úrslitum um hvort allir komast heilir út. Mikilvægt er að allir á heimilinu þekki neyðarnúmerið, 112. Að minnsta kosti tvær greiðar flóttaleiðir eiga að vera út úr húsinu og má tryggja það með neyðarstiga þar sem þörf krefur. Ráðlegt er að ákveða fyrirfram stað þar sem allir hittast þegar út er komið svo hægt verði að staðfesta sem fyrst að allir hafi komist út.

Slökkvitæki á að vera við helstu flóttaleið. Slökkva má minni háttar eld með slökkvitæki en enginn á þó að setja sig í hættu við slökkvistarf. Leiðbeiningar um viðhald og endurnýjun eiga að vera á tækinu og ber að fylgja þeim.

Matseld er mjög algeng orsök eldsvoða á heimilum og er eldvarnateppi því ómissandi hluti af eldhúsinu. Það á að hafa á vel sýnilegum og aðgengilegum stað í eldhúsi. Skvettið alls ekki vatni á eld í olíu. Það veldur sprengingu.

Vatnstökustaðir

Þegar slökkvilið kemur á eldstað í þéttbýli er yfirleitt hægt að treysta því að það hafi góðan aðgang að slökkvivatni. Sú er ekki endilega raunin í dreifbýli. Því er mikilvægt að þeir sem búa í dreifbýli þekki alla mögulega vatnstökustaði sem nothæfir eru til dælingar. Ef enginn nothæfur vatnstökustaður er fyrir hendi þarf að vera á hreinu hvar styst er að fara til að ná í vatn á tankbíl. Víða er hægt að útbúa vatnstökustað, til dæmis í bæjarlæk. Vatnstökustaðir nýtast að sjálfsögðu einnig vel ef eldur kemur upp í útihúsum.

Um leið og við hvetjum fólk til að hafa nauðsynlegan eldvarnabúnað á heimilinu og gera ráðstafanir vegna slökkvistarfs leggjum við ekki síður áherslu á mikilvægi þess að fara varlega í daglegri umgengni á heimilinu. Þannig getum við dregið verulega úr líkum á því að eldur komi upp. Það er fyrir mestu.

Garðar er framkvæmdastjóri Eldvarnabandalagsins. Greinin birtist áður í Bændablaðinu.

Skildu eftir svar