Mikilvægi eldvarna í landbúnaði

Eldvarnir í landbúnaði hafa lengi verið í umræðunni og ekki að ástæðulausu. Landbúnaður er stundaður í sveitum landsins og er yfirleitt fjarri þéttbýlisstöðum þar sem sveitarfélög byggja upp grímurstarfsemi slökkviliða sinna.

Vegalengdir frá næsta slökkviliði geta verið tugir kílómetra og því getur biðin eftir utanaðkomandi aðstoð orðið ansi löng. Vatnsöflun til slökkvistarfa í dreifbýli er heldur ekki sjálfgefin og víða getur tekið langan tíma að tryggja vatn til slökkvistarfa svo hægt sé að bjarga skepnum og verja mannvirki.

Vegna þessara aðstæðna er alls ekki óeðlilegt að þessi mál sé með reglulegum hætti í umræðunni og einnig til hvaða ráðstafana sé hægt að grípa til að lágmarka áhættuna.

Staða eldvarna í sveitum landsins er án efa með afar misjöfnum hætti. Sums staðar er hún til fyrirmyndar en óviðunandi annars staðar. Þau atriði sem hvað oftast er rætt um í þessu sambandi er óvarið frauðplast í loftum gripahúsa, en allt of víða er þetta alvarlega vandamál enn fyrir hendi. Brunaviðvaranir virðast ekki algengar í gripahúsum. Einnig virðist algengt að brunahólfun á milli vélageymsla og gripahúsa sé ekki sem skyldi.

Eldvarnaeftirlit

Stórátak þarf til að koma þessum hlutum í lag til að tryggja öryggi skepna sem og lífsviðurværi bænda sem sjálfsögðu stafar mikil ógn af þessu ástandi verði ekkert að gert.

Sveitarfélögum er skylt að sinna eldvarnaeftirliti samkvæmt 12. gr. laga um brunavarnir nr. 75/2000.

Mörg sveitarfélög sinna eftirlitinu með starfsmann í fullu starfi, sum eru með marga eftirlitsmenn, önnur sinna eftirlitinu í minna starfshlutfalli og sum því miður ekki neitt. Þrátt fyrir skyldur sveitarfélaga til að sinna eftirlitinu þá bera eigendur og forráðamenn ábyrgð á eigin brunavörnum og ber að tryggja að þær fullnægi kröfum sem settar eru fram í lögum og reglugerðum. Eigendur mannvirkja og rekstraraðilar eru hvattir til kynna sér og taka upp eigið eldvarnaeftirlit í mannvirkjum sínum.

Á starfssvæði slökkviliðs Norðurþings er eldvarnaeftirliti sinnt í fullu starfi. Á svæðinu eru um 300 skoðanaskyldir staðir og skoðaðir eru 100–150 staðir á hverju ári. Hluti þeirra skoðana er í mannvirkjum í landbúnaði.

Fyrir skömmu voru framkvæmdar skoðanir á 17 lögbýlum á svæðinu. Í 90 prósent tilfella voru gerðar sömu athugasemdirnar. Þær algengustu voru að Út/exit ljós vantaði við útganga og nánast algilt var að slökkvitæki vantaði í mannvirkin.

 Frauðplastið út

Einungis var um að ræða óvarið frauðplast í lofti tveggja húsa sem verður að teljast einstaklega gott í ljósi þess að flest þessara mannvirkja voru byggð fyrir áratugum síðan og þá var þessi tegund einangrunar nánast allsráðandi.

Ánægjulegt er frá því að segja að nokkrum vikum eftir skoðunina bárust eftirlitinu myndir sem sýndu að byrjað var að fjarlægja frauðplastið úr lofti annars þessara tveggja staða og einangra með steinull í staðinn.

Umgengni í öllum mannvirkjunum og á lóðum þeirra var yfirleitt til fyrirmyndar og alls staðar var ruslsöfnun haldið í lágmarki. Það er afar mikilvægt og dregur stórlega úr líkum á eldsvoða og tryggir að flóttaleiðir og aðkoma slökkviliðs og annarra viðbragðsaðila séu greiðar.

Eldvarnir heimilisins

Lögsaga eldvarnaeftirlits nær ekki inn á heimili fólks og því var íbúðarhúsnæði ekki skoðað sérstaklega. Oftar en ekki var eftirlitsmönnum þó boðið í kaffi að skoðun lokinni og þá var af gömlum vana horft eftir reykskynjurum og slökkvitækjum sem voru fyrir hendi á öllum þeim býlum sem heimsótt voru.

Íbúar, sérstaklega í dreifbýli, þurfa að vera vel meðvitaðir um þann tíma sem tekið getur slökkvilið og aðra viðbragðsaðila að komast til þeirra og ættu þar af leiðandi að huga vel að eldvörnum. Mikilvægt er að brunaviðvörunarkerfi og slökkvitæki séu fyrir hendi og virk svo bændur geti komið sér og sínum, ásamt skepnum, með öruggum hætti út úr brennandi mannvirkjum.

Grímur Kárason, slökkviliðsstjóri Norðurþings, tók saman fyrir Eldvarnabandalagið. Greinin birtist áður í Bændablaðinu.

Skildu eftir svar