Guðmundur Hallgrímsson

Vatnsöflun vegna slökkvistarfs í dreifbýli

Vatnsöflun vegna slökkvistarfs í dreifbýli getur víða verið vandamál fyrir slökkvilið. Flest slökkvilið eru vel tækjum búin með tankbíla, sem eru mjög nauðsynlegir ef eldur verður laus til sveita. Víða eru langar vegalengdir á eldstað og útkallstími óþægilega langur. Mjög slæmt er fyrir slökkvilið að verða vatnslaus við slökkvistörf en oft eru það minni bílar staðsettir út um sveitir með mjög lítinn vatnsforða (1.000 til 2.000 lítra) sem eru fyrstir á staðinn.

Nauðsynlegt er fyrir slökkvilið og ábúendur að þekkja alla mögulega vatnstökustaði sem nothæfir eru til dælingar. Þeir þurfa að vita um vegalengdir, hæðarmun og aðkomuleiðir að staðnum. Ef enginn nothæfur vatnstökustaður er fyrir hendi þarf að vera á hreinu hvar styst er að fara til að ná í vatn á tankbíl. Víða er hægt að útbúa vatnstökustað, til dæmis í bæjarlæk, þar sem þarf að koma fyrir stíflu til að hafa smá vatnssöfnun (sjá mynd). Þarna er um að ræða 45 ára gamla manngerða tjörn í Norðurárdal í Borgarfirði, sem hefur staðist tímans tönn en fer að þarfnast hreinsunar. Í henni eru 800 til 1.000 rúmmetrar af vatni.

Efla þarf forvarnir

Ef bæjarlækur fer í ræsi undir veg getur verið gott að hafa tiltækan hlemm sem hægt er að setja fyrir ræsið og safna vatni meðan slökkvilið er á leiðinni. Mörg slökkvilið eru komin með svokallaðan ,,one seven“ búnað og þá þarf minna magn af vatni. Búnaðurinn brýtur vatnið niður svo yfirborðið margfaldast og virkar mun drýgra en með venjulegri dælingu.Margir bændur hafa gert ýmsar ráðstafanir til að geta brugðist við ef eldur verður laus og beðið er eftir slökkviliði. En eins og gengur hafa aðrir því miður lítið velt þessu fyrir sér. Best er þó að byrja á byrjuninni og efla forvarnir. Yfirfara þarf reglulega rafmagn og raflagnir, ljós, tengingar og töflur og athuga hitamyndun til dæmis með hitamyndavél. Eftir heimsóknir mínar til fjölmargra bænda síðastliðin ár hafa víða verið athugasemdir út af hitamyndun út af rafmagni og sumstaðar komið nærri hættumörkum. Best er að fá fagmann til að laga það sem laga þarf.

Guðmundur Hallgrímsson, fyrrverandi ráðsmaður á Hvanneyri, tók saman fyrir Eldvarnabandalagið. Greinin hefur áður birst í Bændablaðinu.

 

Skildu eftir svar