Eldvarnabandalagið gefur út fyrirmynd að eldvarnastefnu fyrir fyrirtæki og stofnanir

Stjórn Eldvarnabandalagsins hefur samþykkt og gefið út fyrirmynd að eldvarnastefnu sem fyrirtæki og stofnanir eru hvött til að taka upp og framkvæma. Gert er ráð fyrir að stefnan sé framkvæmd á grundvelli leiðbeininga Eldvarnabandalagsins um eigið eldvarnaeftirlit fyrir fyrirtæki og stofnanir. Í eldvarnastefnu eru tilgreind markmið viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar og settar fram leiðir til að ná þeim markmiðum. Eldvarnastefnan getur staðið sjálfstætt sem stefna um eldvarnir eða verið liður í öryggisstefnu.

Markmið eldvarnastefnu er að auka öryggi starfsfólks, skjólstæðinga og viðskiptavina, draga úr líkum á tjóni á rekstri og eignum og viðhalda fjárfestingu sem liggur í eldvarnabúnaði. Helstu leiðir til að ná þessum markmiðum eru:

  • Að fela eldvarnafulltrúa/eldvarnafulltrúum að framkvæma mánaðarlegt og árlegt eldvarnaeftirlit samkvæmt gátlistum og gera úrbætur í samræmi við ábendingar, sbr. reglugerð nr. 723/2017 um eldvarnir og eldvarnaeftirlit.
  • Að greina og draga úr eldhættu í samvinnu við starfsmenn og eftir atvikum utanaðkomandi ráðgjafa.
  • Að innleiða verklagsreglur Eldvarnabandalagsins um logavinnu. Logavinna fer ekki fram í húsnæði fyrirtækis/stofnunar nema samkvæmt logaleyfi sem byggir á verklagsreglunum.
  • Að veita starfsfólki fræðslu um grunnatriði eldvarna og brýna fyrir því að lagfæra það sem aflaga fer eða láta næsta yfirmann vita af hugsanlegum ágöllum.
  • Að hafa ávallt í gildi rýmingaráætlun, uppfæra hana eftir þörfum og æfa reglulega eða eigi sjaldnar en árlega.

Fyrirmynd að eldvarnastefnu og leiðbeiningar um eigið eldvarnaeftirlit.

Gátlistar Eldvarnabandalagsins fyrir eigið eldvarnaeftirlit.

Verklagsreglur um logavinnu og eyðublað fyrir logaleyfi.

Skildu eftir svar