Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hvatti Eldvarnabandalagið til dáða á ársfundi

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sagði í ávarpi sínu á ársfundi Eldvarnabandalagsins í gær að hvergi mætti slaka á í forvarnastarfi vegna eldvarna. Óskaði hann Eldvarnabandalaginu alls góðs í störfum sínum, þau væru mikilvæg fyrir þjóðfélagið allt og hefðu augljóslega sannað gildi sitt. Mannvirkjastofnun og þar með málefni eldvarna færðust undir félags- og barnamálaráðuneytið um síðustu áramót.

Fjölmargir áhugaverðir fyrirlestrar voru fluttir á vel sóttum ársfundi sem haldinn var í björgunarmiðstöðinni Gróubúð við Grandagarð í Reykjavík.asmundur - Copy (13)

Eftir að Garðar H. Guðjónsson verkefnastjóri hafði farið yfir verkefni og áherslur Eldvarnabandalagsins 2018-2019 fjallaði Björn Halldórsson, formaður öryggisnefndar Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, um öryggismál og eldvarnir í sjávarútvegi. Að loknu hádegishléi sagði Guðmundur Hallgrímsson á Hvanneyri frá heimsóknum sínum til bænda á undanförnum árum þar sem hann hefur meðal annars gætt að ástandi eldvarna. Svanfríður Anna Lárusdóttir, verkefnisstjóri hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, fræddi fundargesti um heimsóknir slysavarnadeilda til eldri borgara og Kristján Vilhelm Rúriksson hjá Mannvirkjastofnun fór yfir brunatjón á síðasta ári. Loks ræddu Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu og formaður Félags slökkviliðsstjóra, og Haukur Grönli varaslökkviliðsstjóri um varnir gegn gróðureldum. Fundarstjóri var Helga Björk Pálsdóttir, verkefnisstjóri hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Ásmundur Einar fjallaði vítt og breitt um starf Eldvarnabandalagsins og gildi þess í ávarpi sínu, en það var svohljóðandi:

Ágætu ársfundargestir.

Á þeim fáeinu vikum sem liðnar eru síðan Mannvirkjastofnun og þar með málefni eldvarna færðust undir félags- og barnamálaráðuneytið hefur verið áhugavert að kynnast því hve ötullega er staðið að fræðslu um eldvarnir á heimilum og vinnustöðum. Að þessu öfluga fræðslu- og forvarnastarfi standa ýmsir aðilar. Þar má nefna Mannvirkjastofnun, slökkviliðin, tryggingafélögin, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Slysvarnafélagið Landsbjörg og, ekki síst, Eldvarnabandalagið.

Brunatjón er sem betur fer með minnsta móti hér á landi miðað við önnur lönd. Staðreyndin er þó engu að síður sú að á hverju ári farast næstum því tvær manneskjur í eldsvoðum og enn fleiri bíða tjón á sál og líkama. Árlegt eignatjón vegna eldsvoða nemur að jafnaði nokkuð á þriðja milljarði króna. Það er því ljóst að við megum hvergi slaka á í forvarnastarfi.

Það er ánægjulegt að þeir sem vinna að eldvörnum og þekkja best til á þessu sviði skuli hafa tekið höndum saman á þessum vettvangi hér og ljóst að það hefur skilað margvíslegum ávinningi. Mér hefur þótt áhugavert að kynnast því hvernig Eldvarnabandalagið hefur með skipulegum hætti gengið til samstarfs við sveitarfélög og slökkvilið vítt og breitt um landið um að efla eldvarnir bæði á vinnustöðum sveitarfélaganna og á heimilum starfsfólks. Samstarfið felst í því að sveitarfélögin taka upp eigið eldvarnaeftirlit í stofnunum sínum samkvæmt gögnum Eldvarnabandalagsins og allt starfsfólk sveitarfélaganna fær fræðslu um eldvarnir heimilisins.

Verkefnið hófst sem tilraunaverkefni árið 2015 en nú er svo komið að Eldvarnabandalagið á í eða hefur átt í samstarfi við um 20 sveitarfélög í flestum landsfjórðungum. Hverju samstarfsverkefni lýkur með árangursmati og sameiginlegri greinargerð um hvernig til hefur tekist. Niðurstaðan er í öllum tilvikum sú að verkefnið hafi ótvírætt skilað sér í auknum eldvörnum bæði á vinnustöðum starfsfólks sveitarfélaganna og heimilum þeirra. Í ljósi þessa er í raun og veru full ástæða til að hvetja fleiri sveitarfélög eindregið til samstarfs við Eldvarnabandalagið.

Það getur reynt á þolinmæðina að fá fólk til að breyta hegðun sinni. Það þekkja allir sem starfa að forvörnum. Kannanir sem Gallup hefur gert fyrir Eldvarnabandalagið og Landssamtök slökkviliðs- og sjúkrafutningamanna á tveggja ára fresti allt frá árinu 2006 sýna svo ekki verður um villst að þolinmæðin hefur borgað sig í ykkar starfi. Samkvæmt nýjustu könnun Gallup sem gerð var síðastliðið haust er nú enginn eða aðeins einn reykskynjari á um 24 prósent heimila. Þetta hlutfall var 38,4 prósent árið 2006. Heimilum með fjóra reykskynjara eða fleiri hefur á sama tíma fjölgað úr 21,5 prósent í 33,3 prósent nú. Slökkvitækjaeign heimila hefur aldrei mælst meiri en haustið 2018. Þessar tölur taka af öll tvímæli um að forvarnastarf getur skilað árangri. Þetta er ótvíræður árangur sem þið getið verið stolt af og hlýtur að vera ykkur mikil hvatning til að halda áfram því góða starfi sem unnið hefur verið.

Eldvarnabandalagið hefur á undanförnum misserum ráðist í ýmis verkefni og fengið ýmsu áorkað sem vafasamt er að hver og einn aðili að bandalaginu hefði tekist á hendur. Nú eru uppi hugmyndir um að Eldvarnabandalagið beiti sér fyrir því að eldvarnir verði efldar í sjávarútvegi og landbúnaði. Ég óska ykkur alls góðs á þeirri vegferð og er þess reyndar fullviss að Eldvarnabandalagið muni ná árangri á þeim vettvangi sem endranær.

Það er ánægjulegt að sjá hvernig samtakamátturinn hefur leitt ykkur á rétta braut og augljóslega mikill styrkur fólginn í því fyrir opinberan aðila eins og Mannvirkjastofnun að búa að þeirri þekkingu og því afli sem býr í hverjum og einum aðila að Eldvarnabandalaginu. Það er líka mikils um vert að í gegnum þetta samstarf hefur tekist að samræma þau skilaboð sem beint er til almennings í almannafræðslu um eldvarnir.

Ágætu fundarmenn. Um leið og ég þakka boð ykkar um að fá að ávarpa fundinn óska ég ykkur alls velfarnaðar í starfi ykkar. Það er mikilvægt fyrir þjóðfélagið allt og hefur augljóslega sannað gildi sitt. Gangi ykkur vel.“

 

Skildu eftir svar