Reykskynjari kom í veg fyrir eldsvoða í fjölbýlishúsi

Reykskynjari kom í veg fyrir eldsvoða í fimm hæða fjölbýlishúsi í Hafnarfirði í nótt, samkvæmt frétt mbl.is. Í frétt mbl.is er haft eftir varðstjóra hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins að tilkynnt hafi verið um eld í stofu íbúðar á sjötta tímanum í nótt. Í ljós kom að kviknað hafði í borði út frá kertaskreytingu og þegar reykskynjari vakti íbúana blasti við þeim eldur í miðri stofunni. Íbúarnir reyndu að slökkva eldinn með slökkvitæki. Það gekk ekki og var kominn mikill reykur í stofuna svo íbúarnir gerðu það eina rétta í stöðunni – forðuðu sér út.

Lögreglan kom á vettvang á undan slökkviliði og náði að hemja eldinn með slökkvitækjum, að sögn mbl.is. Að sögn varðstjóra slökkviliðsins reyndist enginn með reykeitrun og þurfti ekki að flytja neinn á sjúkrahús. Litlar skemmdir urðu jafnframt á íbúðinni og er óhætt að segja að lágmarks eldvarnabúnaður og rétt viðbrögð hafi þarna ótvírætt sannað gildi sitt.

Skildu eftir svar