Brunavörnum Suðurnesja tókst að koma í veg fyrir stórtjón þegar eldur kom upp í þaki húsnæðis á Keflavíkurflugvelli í gærmorgun. Haft er eftir Jóni Guðlaugssyni slökkviliðsstjóra á mbl.is að eldur hafi kviknað vegna logavinnu á þakinu en að greiðlega hafi gengið að slökkva eldinn og koma í veg fyrir að stórtjón yrði.
Mörg dæmi eru um að verulegt tjón hafi orðið vegna vinnu með opinn eld og neista, ekki síst þegar pappi er lagður á þök. Jón Guðlaugsson sagði við mbl.is að tjónið á Keflavíkurflugvelli væri töluvert en að enn verr hefði getað farið.
„Það gekk ágætlega að slökkva þetta, en það er nú eðli svona elda, þegar það er verið að vinna með hita og eldfim efni á þökum, að ef það er ekki brugðist skjótt við þá getur þetta orðið ansi erfitt. En þetta tókst vel. Þetta er alltaf talsvert tjón, ég veit ekki hversu mikið það er en tjónið er alltaf talsvert. En það hefði getað orðið margfalt þetta, það má eiginlega orða það þannig að það hafi tekist að forða stjórtjóni,“ sagði Jón við mbl.is.
Í þessu sambandi er rétt að minna á að Eldvarnabandalagið hefur gefið út verklagsreglur um hvernig standa skal að öryggi og eldvörnum vegna logavinnu. Þar er kveðið á um helstu varúðarreglur, logaleyfi og viðbúnað sem viðhafa skal við logavinnu. Reglurnar má nálgast hér á vefnum.