Sveitarfélög sýna eigin eldvarnaeftirliti vaxandi áhuga

Sveitarfélög víða um land hafa sýnt áhuga á því að innleiða eigið eldvarnaeftirlit í samstarfi við Eldvarnabandalagið. Fjögur sveitarfélög hafa nú þegar innleitt eigið eldvarnaeftirlit samkvæmt gögnum Eldvarnabandalagsins og lofar árangurinn af þeim verkefnum góðu, að sögn slökkviliðsstjóra í viðkomandi sveitarfélögum.

Eldvarnabandalagið á í viðræðum við sveitarfélög á Suðurlandi, Norðurlandi og Austurlandi um innleiðingu eigin eldvarnaeftirlits. Ef af verður munu sveitarfélögin innleiða eigið eldvarnaeftirlit í haust. Í því felst að þjálfa eldvarnafulltrúa til að framkvæma eldvarnaeftirlit í öllum stofnunum sveitarfélaganna mánaðarlega og árlega samkvæmt gátlistum Eldvarnabandalagsins. Allir starfsmenn sveitarfélaganna fá fræðslu um eldvarnir á vinnustað og heima fyrir og loks innleiða sveitarfélögin verklagsreglur Eldvarnabandalagsins um logavinnu. Eldvarnabandalagið lætur í té öll gögn vegna fræðslunnar án endurgjalds.

Góð reynsla er af framkvæmd eigin eldvarnaeftirlits á Akranesi, í Húnaþingi vestra, á Akureyri og í Fjarðabyggð. Þannig kom fram í máli Péturs Arnarssonar, slökkviliðsstjóra í Húnaþingi vestra, á ársfundi Eldvarnabandalagsins nýverið að verkefnið hefði þegar leitt til aukinna eldvarna hjá sveitarfélaginu. Pétur segir viðhorfsbreytingu eldvarnafulltrúa og starfsfólks sveitarfélagsins gagnvart eldvörnum mikilvægan ávinning. Þá hafi verkefnið „smitast út í samfélagið“ og meðal annars leitt til aukinnar sölu eldvarnabúnaðar til almennings.

Skildu eftir svar