sh4a0020

Góður árangur af samstarfinu við Akraneskaupstað

Góður árangur varð af samstarfi Eldvarnabandalagsins við Akraneskaupstað um innleiðingu eigin eldvarnaeftirlits og fræðslu til starfsfólks um eldvarnir heimilisins. Þetta kemur fram í sameiginlegri greinargerð aðila sem kynnt var í bæjarráði Akraness 10. nóvember síðastliðinn. Fram kemur að helstu markmið verkefnisins hafi náðst, það er að auka eldvarnir og þróa verkefni sem getur  nýst öðrum í sama tilgangi.

Greinargerðin var unnin sameiginlega af verkefnastjóra Eldvarnabandalagsins, verkefnastjóra hjá Akraneskaupstað og slökkviliðsstjóra Slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar. Rifjað er upp að í apríl 2015 rituðu aðilar undir samkomulag um auknar eldvarnir. Í því fólst að Akraneskaupstaður innleiddi eigið eldvarnaeftirlit í stofnunum sínum haustið 2015 og héldi því úti í tilraunaskyni í eitt ár frá 1. október. Einnig að allir starfsmenn bæjarins, um 600 talsins, fengju fræðslu um eldvarnir heimilisins.

Tilnefndir voru eldvarnafulltrúar fyrir stofnanir bæjarins og fengu þeir nauðsynlega þjálfun til að halda uppi eigin eldvarnaeftirliti samkvæmt gögnum Eldvarnabandalagsins. Eldvarnabandalagið lagði til allt fræðsluefni án endurgjalds og tók fullan þátt í fræðslu fyrir eldvarnafulltrúa og annað starfsfólk. Einnig var fræðslu um eldvarnir beint til leigjenda á Akranesi í tengslum við umsóknir um húsaleigubætur.

Niðurstaða greinargerðarinnar er að samstarfið hafi gengið vel og að mestu skilað tilætluðum árangri. Í nokkrum stofnunum var þó misbrestur á að reglulegu eldvarnaeftirliti væri haldið uppi og er bent á að bregðast þurfi við því með betri umsjón með starfi eldvarnafulltrúa. Þróuð var fræðsla fyrir eldvarnafulltrúa og annað starfsfólk sem síðan hefur nýst í sambærilegum verkefnum í Húnaþingi vestra, á Akureyri og í Fjarðabyggð en eigin eldvarnaeftirlit hefur verið innleitt í sveitarfélögunum þremur nú í haust í samvinnu við Eldvarnabandalagið.

Greinargerðin byggir að miklu leyti á svörum eldvarnafulltrúa við spurningalista sem lagður var fyrir þá. Þar kemur fram almenn ánægja með fræðslu vegna verkefnisins. Spurt var meðal annars hvort fræðsla um eldvarnir heimilisins hefði haft jákvæð áhrif á eldvarnir á heimilum og svöruðu eldvarnafulltrúarnir því játandi allir sem einn. Það var einnig almenn skoðun eldvarnafulltrúanna að Akraneskaupstaður ætti að halda áfram eigin eldvarnaeftirliti að loknu samstarfinu við Eldvarnabandalagið.

Bæjarráð Akraness bókaði sérstakar þakkir til þeirra sem stóðu að verkefninu. Greinargerðina má skoða hér: greinargerd-eb-akranes-loka

Skildu eftir svar