Eldvarnafræðsla í Fjarðabyggð

Eldvarnafulltrúar Fjarðabyggðar á Reyðarfirði og í Neskaupstað sátu námskeið á vegum Eldvarnabandalagsins og Slökkviliðs Fjarðabyggðar í gær. Þá fengu starfsmenn Nesskóla og fleiri stofnana í Neskaupstað fræðslu um eldvarnir bæði á vinnustaðnum og heima. Fræðslan er liður í innleiðingu eigin eldvarnaeftirlits í stofnunum Fjarðabyggðar í samvinnu við Eldvarnabandalagið.

Skipaðir hafa verið um 50 eldvarnafulltrúar í Fjarðabyggð og munu þeir annast mánaðarlegt og árlegt eldvarnaeftirlit í stofnunum sveitarfélagsins samkvæmt gátlistum Eldvarnabandalagsins. Fræðslan fyrir eldvarnafulltrúa og annað starfsfólk byggist á efni sem Eldvarnabandalagið hefur gefið út og fræðsluefni sem þróað var í samvinnu við Akraneskaupstað vegna innleiðingar eigin eldvarnaeftirlits þar fyrir um ári síðan.

Allir starfsmenn Fjarðabyggðar, um 430 talsins, munu fá fræðslu um eldvarnir vinnustaðarins og heimilisins. Þeir fá allir afhenta handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins.

Ennfremur er unnið að innleiðingu eigin eldvarnaeftirlits hjá Akureyrarbæ og í Húnaþingi vestra um þessar mundir í samvinnu við Eldvarnabandalagið.

Skildu eftir svar