Þátttakendur og leiðbeinendur á námskeiðinu á Hvammstanga.

Eldvarnafulltrúar í Húnaþingi vestra á námskeiði

Eldvarnabandalagið og Slökkvilið Húnaþings vestra héldu námskeið fyrir eldvarnafulltrúa sveitarfélagsins í ráðhúsinu á Hvammstanga í gær. Námskeiðið er liður í innleiðingu eigin eldvarnaeftirlits í stofnunum Húnaþings vestra sem hefjast á í byrjun október í samvinnu við Eldvarnabandalagið. Unnið er að skipulagningu fræðslu um eldvarnir á vinnustað og heimili fyrir allt starfsfólk sveitarfélagsins og er það einnig liður í samstarfi Eldvarnabandalagsins og Húnaþings vestra.

Á námskeiðinu voru notaðar glærur og fræðsluefni sem Eldvarnabandalagið hefur gefið út en leiðbeinendur voru Garðar H. Guðjónsson, verkefnastjóri Eldvarnabandalagsins, og Pétur R. Arnarsson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Húnaþings vestra. Farið var yfir hlutverk eldvarnafulltrúa og helstu atriði eldvarna á vinnustað.

Undirbúningur að innleiðingu eigin eldvarnaeftirlits stendur jafnframt yfir á Akureyri og í Fjarðabyggð og er sömuleiðis stefnt að því að eigið eldvarnaeftirlit hefjist þar í byrjun október. Í öllum tilvikum er um að ræða samstarfsverkefni við Eldvarnabandalagið til tólf mánaða. Sams konar verkefni hófst á Akranesi fyrir um ári síðan og er nú unnið að gerð sameiginlegrar greinargerðar um hvernig til tókst.

Skildu eftir svar