Sveitarfélög undirbúa innleiðingu eigin eldvarnaeftirlits

Undirbúningur að innleiðingu eigin eldvarnaeftirlits hjá þremur sveitarfélögum stendur yfir þessa dagana. Akureyri, Húnaþing vestra og Fjarðabyggð hyggjast öll innleiða eigið eldvarnaeftirlit 1. október næstkomandi í samvinnu við Eldvarnabandalagið og stendur útnefning eldvarnafulltrúa nú yfir. Hlutverk þeirra er að framkvæma mánaðarlegt og árlegt eldvarnaeftirlit í stofnunum sveitarfélaganna samkvæmt leiðbeiningum og gátlistum Eldvarnabandalagsins.

Eldvarnafulltrúarnir munu fá nauðsynlega fræðslu í september til að geta sinnt hlutverki sínu. Þá munu jafnframt allir starfsmenn sveitarfélaganna fá fræðslu um eldvarnir á vinnustað og heima og er unnið að skipulagningu fræðslunnar. Allir starfsmenn munu fá afhenta handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins. Slökkvilið sveitarfélaganna þriggja eru virkir þátttakendur í samstarfinu við Eldvarnabandalagið.

Á sama tíma er unnið að gerð sameiginlegrar greinargerðar Eldvarnabandalagsins og Akraneskaupstaðar um árangur af innleiðingu og framkvæmd eigin eldvarnaeftirlits hjá Akraneskaupstað en það hefur staðið yfir í tilraunaskyni síðan 1. október 2015. Greinargerðin mun meðal annars byggjast á svörum eldvarnafulltrúa Akraneskaupstaðar við spurningalista sem þeim hefur verið sendur. Stefnt er að því að greinargerðin liggi fyrir og verði kynnt um miðjan október.

 

Skildu eftir svar