sh4a9779

Eldvörnum í leiguhúsnæði á Akranesi ábótavant

Eldvörnum í leiguhúsnæði á Akranesi er að jafnaði ábótavant, samkvæmt könnun sem Akraneskaupstaður gerði í samvinnu við Eldvarnabandalagið. Vel ríflega helmingur svarenda sagðist aðeins vera með einn reykskynjara eða jafnvel engan. Innan við þriðjungur er með allt í senn reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi eins og Eldvarnabandalagið mælir með. Sambærilegt hlutfall á landsvísu er um 45 prósent.

Könnunin var gerð í tengslum við umsóknir um húsaleigubætur í janúar síðastliðnum og er liður í samvinnu Akraneskaupstaðar og Eldvarnabandalagsins um að auka eldvarnir á heimilum og vinnustöðum. Umsóknir voru alls 181 og þar af tóku 126 þátt í könnuninni eða 70 prósent. Spurt var um fjölda reykskynjara á heimilinu og hvort fyrir hendi væru slökkvitæki og eldvarnateppi.

Niðurstöðurnar eru í samræmi við rannsóknir sem Gallup hefur gert fyrir Eldvarnabandalagið og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Kannanir Gallup hafa sýnt að eldvarnir eru áberandi lakari í leiguhúsnæði en hjá þeim sem búa í eigin húsnæði.

Í kjölfar könnunarinnar sendu Akraneskaupstaður og Eldvarnabandalagið umsækjendum um húsaleigubætur bréf þar sem hvatt var til aukinna eldvarna. Bréfinu fylgdi handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins og bæklingar um eldvarnir á ýmsum tungumálum þar sem það átti við.

Aðeins ríflega 40 prósent leigjenda á Akranesi segjast eiga eldvarnateppi en hlutfallið er 60 prósent á landsvísu samkvæmt Gallup. Hins vegar segjast 68 prósent eiga slökkvitæki og er það nálægt landsmeðaltali samkvæmt mælingum Gallup. Fjöldi reykskynjara á heimilum leigjenda á Akranesi er mun minni en almennt gerist. Nær 60 prósent segjast aðeins vera með einn og jafnvel engan reykskynjara. Hlutfallið á landsvísu er helmingi lægra eða rétt um 30 prósent. Samkvæmt ráðleggingum Eldvarnabandalagsins á staðalbúnaður á hverju heimili að vera tveir eða fleiri virkir reykskynjarar, slökkvitæki og eldvarnateppi.