OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Brunatjón talsvert undir meðaltali í fyrra

Bætt brunatjón tryggingafélaganna var langt undir meðaltali á árinu 2015. Enginn lést í eldsvoða á árinu og er það sjötta árið frá aldamótum sem það gerist. Að jafnaði hafa einn til tveir einstaklingar látið lífið í eldsvoðum ár hvert síðan 1979. Þetta kom fram í erindi Guðmundar Gunnarssonar, fagstjóra eldvarna hjá Mannvirkjastofnun, á ársfundi Eldvarnabandalagsins sem haldinn var í Reykjavík 17. mars síðastliðinn.

Bætt brunatjón árið 2015 nam 1.312 milljónum króna en meðaltal undanfarinna áratuga nemur 2.106 milljónum. Mesta einstaka tjón ársins varð þegar Plastiðjan á Selfossi brann í nóvember en annar stórbruni varð í sömu götu síðastliðið sumar þegar eldsvoði varð á geymslusvæði Sets.

Sem fyrr segir varð ekkert manntjón í eldsvoða í fyrra. Alls hafa 76 látist í eldsvoðum hér á landi frá árinu 1979 eða 1,7 að meðaltali ár hvert. Banaslysin hafa í 85 prósent tilvika orðið á einkaheimilum. Næstum fjórir af hverjum fimm sem látist hafa í eldsvoðum eru karlar og er meðalaldur þeirra 57 ár.

Rafmagn er algengasta orsök eldsvoða eða um 32 prósent. Aðallega er þar um að ræða ranga notkun rafmagnstækja og í meira en helmingi tilvika eru eldsupptök vegna notkunar eldavéla.